Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 9. fundur,  27. sept. 2022.

Verðbólga, vextir og staða heimilanna.

[15:16]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Þegar ég skoða fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar þá sé ég ekki hvernig aðgerðir ríkisstjórnarinnar gegn verðbólgu eiga að virka. Það er sagt að það séu einhverjar aðgerðir og vísað í einhverjar ákvarðanir eins og varanlega lækkun ferðakostnaðar ríkisins, frestun á útgjaldamálum, lækkun framlaga til stjórnmálaflokka, endurskoðun fjárfestingaráforma, aðhald í ríkisútgjöldum og frestun á hluta af nýju útgjaldasvigrúmi. Rosalega fallegt. Einnig er vísað í ákvörðun frá því í maí um bætur almannatrygginga, húsnæðisbætur og sérstakan barnabótaauka. Allar ákvarðanirnar frá því í maí auka peningamagn í umferð og auka þar af leiðandi verðbólgu. Þær beinast vissulega að hópum sem verða fyrir mestum áhrifum af verðbólgu þannig að þær eru tvímælalaust jöfnunaraðgerðir en greitt er fyrir þær með meiri verðbólgu í heild sinni eða að hluta til með hinum aðgerðunum, þ.e. frestun útgjaldamála, aðhaldi í ríkisútgjöldum og þess háttar. Þær aðgerðir nema samtals um 30 milljörðum. En hvað eru 30 milljarðar í þessu samhengi? Miðað við 7,5% ársverðbólgu fyrir árið 2022 erum við að tala um allt að 250 milljarða kostnað af verðbólgunni miðað við verga landsframleiðslu. Ríkisstjórnin leggur á móti til 30 milljarða kr. mótvægisaðgerð. Höfum í huga að án verðhækkana á húsnæðismarkaði væri verðbólgan um 2% lægri. Það eitt og sér eru nær 70 milljarðar af vergri landsframleiðslu. Sá aukni kostnaður kemur að miklu leyti til af völdum aðgerða ríkisstjórnar í húsnæðismálum. Einungis örsmár hluti mótvægisaðgerða kemur til móts við þann kostnað sem hefur orðið af stefnu stjórnvalda. Þetta er aukakostnaður fyrir fólk upp á tugi milljarða vegna ákvarðana þessarar ríkisstjórnar án viðeigandi mótvægisaðgerða.