Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 10. fundur,  29. sept. 2022.

sveigjanleg tilhögun á fæðingar- og foreldraorlofi.

214. mál
[13:14]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Mig langaði að spyrja hv. þingmann fleiri spurninga. Þegar yngri sonur minn fæddist bjuggum við í Svíþjóð og þar voru dálítið aðrar reglur en hér heima. Sveigjanleikinn varðandi það hvenær við vildum taka fæðingarorlofið var þar til barnið var orðið sex ára, og var fæðingarorlofið þá oft notað dag og dag í senn þegar starfsdagar voru í leikskólanum. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvað henni finnist um það. Yfir hve langt tímabil ættu foreldrar að geta teygt þetta? Mig langaði líka að vita hvað hv. þingmanni finnst um það sem við heyrðum hér í ræðu fyrr í dag þar sem rætt var um að hægt væri að lengja orlofið upp í 16 eða jafnvel 18 mánuði. Í þriðja lagi langar mig að spyrja hv. þingmann: Það hefur verið bent á að einstæðir foreldrar séu kannski í svolítið erfiðari aðstæðum en sambúðaraðilar og þá sér í lagi af því að þó svo að einstæðir foreldrar fái að nota allan orlofstímann þá hefur það áhrif á vinnu og feril viðkomandi. Mig langaði að heyra frá hv. þingmanni hvað henni fyndist um þá hugmynd sem hefur komið upp að aðrir náskyldir ættingjar gætu jafnvel tekið hluta á móti einstæðu foreldri.