Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 10. fundur,  29. sept. 2022.

sveigjanleg tilhögun á fæðingar- og foreldraorlofi.

214. mál
[13:19]
Horfa

Flm. (Bergþór Ólason) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur fyrir að koma í þessa umræðu. Ég þekki ágætlega sjónarmiðin sem hv. þingmaður talaði fyrir og ég veit að það eru margir sem deila þeirri skoðun sem hún setti fram á fæðingarorlofskerfinu eins og það er. Mér finnst einhvern veginn að þetta kerfi hljóti í grunninn að snúast um hagsmuni barnsins, ekki um launajafnrétti eða stöðu á vinnumarkaði, hversu óheppilegur starfskraftur er, hvort um er að ræða karl eða konu. Kannski erum við að nálgast málið hvort úr sinni áttinni en ég hef á tilfinningunni að sú þrenging sem gerð var við breytinguna síðast, hvað varðar frelsi í ráðstöfun — að það muni koma á daginn, þó að ég hafi ekki kallað eftir upplýsingum þar að lútandi, að nýtingarhlutfall fæðingarorlofs lækki. Það kemur til af því að þakið á greiðslur er þeirrar gerðar að það getur haft veruleg fjárhagsleg áhrif á heimili að sú fyrirvinna sem hefur hærri laun taki sér frí frá vinnu.

Spurningin sem ég vil spyrja hv. þingmann að er þessi: Þessi sjónarmið sem snúa að jafnri stöðu á vinnumarkaði — er ekki betra að huga að þeim málum í öðrum lögum en þeim sem hér um ræðir? Við erum með lög um jafnlaunavottun (Forseti hringir.)og ýmislegt annað, erum við ekki að teygja okkur heldur langt að láta lög um fæðingarorlof vera því undirorpin að tryggja þennan jöfnuð.