Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 11. fundur,  10. okt. 2022.

gjaldþrotaskipti o.fl.

277. mál
[16:45]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Í frumvarpinu er talað um atvinnurekstrarbann og það fyrsta sem mér dettur í hug er stjórnarskráin, um réttindi er lúta að atvinnufrelsi. Það virðist ekki koma fram í frumvarpinu hvernig þetta ákvæði um atvinnurekstrarbann einstaklings tónar við ákvæði í stjórnarskrá um atvinnufrelsi. Ég tek líka eftir því, og væri gaman að heyra viðhorf ráðherrans í því, að þarna er verið að banna fólki sem er jafnvel mikið að stofna fyrirtæki og svoleiðis, ekkert endilega í svikastarfsemi, að taka þátt í að stofna fyrirtæki.

Önnur spurningin er þessi: Í Noregi er lagt til að dómstóll geti lagt á atvinnurekstrarbann ef rökstuddur grunur er um refsiverða háttsemi. Skilyrðin í frumvarpinu eru mjög matskennd. Hefði ekki verið rétt að byggja bara á rökstuddum grun um refsiverða háttsemi og jafnvel að einstaklingur hefði verið sakfelldur á grundvelli skilasvikaákvæðisins, 250. gr.?

Þriðja spurningin er hvort ekki hefði verið rétt og sé ekki rétt að skerpa á 250. gr. varðandi skilasvik. Í 250. gr. almennra hegningarlaga segir, með leyfi forseta:

„Fyrir skilasvik skal refsa með allt að 6 ára fangelsi hverjum þeim, sem sekur gerist um eftirgreinda verknaði:“

Í 4. lið þar undir segir:

„Skerðir rétt einhvers lánardrottins síns til þess að öðlast fullnægju af eignum hans með því að gefa rangar upplýsingar, með undanskoti eigna o.s.frv.“

Hefði ekki verið rétt að skoða líka hegningarlagaákvæðið, 250. gr., til að koma í veg fyrir kennitöluflakk? Við gjaldþrot þegar skiptastjóri sér að um kennitöluflakk er að ræða þá sé farið beint til lögreglu með það mál, að það sé gert í meira mæli en þegar er orðið. Þetta eru þrjár spurningar.