Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 13. fundur,  12. okt. 2022.

fjarvinnustefna.

213. mál
[17:17]
Horfa

Flm. (Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir mjög góða spurningu. Ég er þeirrar skoðunar að í stefnu sem þessari felist ótrúlega mikil tækifæri fyrir fólk búsett á landsbyggðunum. Mér finnst hiklaust, um leið og aflað er ganga og upplýsinga um reynsluna, að það eigi líka að kortleggja stöðuna eins og hún er. Þegar hv. þingmaður nefnir að 30% íbúa í hennar bæjarfélagi sæki til Reykjavíkur, ýmist í skóla eða vinnu, þá segir það heilmikla sögu. Liður í því að halda fólki í heimabyggð og sækja það aftur er að það séu tækifæri til starfa, annarra en þeirra sem bara eru staðsett þar. Ég var um tíma deildarforseti lagadeildarinnar á Bifröst, ég var búsett í Reykjavík og mín fjölskylda var þar. En vegna þess að starfsumhverfið var eins og það var þá var það aðgengilegur valkostur fyrir mig að sækja þetta spennandi starf, en það hefði ekki verið valkostur fyrir mig sem þriggja barna móður að flytjast þangað upp eftir.