Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 14. fundur,  13. okt. 2022.

ástandið í lyfjamálum.

[10:50]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og það er gott að heyra það. Aðeins um þetta með hækkandi verð og að það séu enn meiri verðhækkanir nú en oft áður. Staðreyndin er nú samt í fyrirliggjandi frumvarpi að undanfarin fimm ár hefur meðaltalsaukning í akkúrat þessum málaflokki verið 10% en frumvarpið gerir ráð fyrir 2%. Þannig að það er samdráttur í því plaggi sem ríkisstjórnin leggur hér fyrir Alþingi. Það er ekki einu sinni verið að viðhalda stöðunni eins og hún hefur verið undanfarin ár, hvað þá að mæta aukinni þörf, heldur er einfaldlega samdráttur. En það er gott að heyra að bregðast eigi við. Ég geri þá ráð fyrir að fjáraukinn, eða hinn margnefndi varasjóður ríkisstjórnarinnar komi hér til, þeirra eigin Mary Poppins taska sem aldrei tæmist. Mig langar þá til að spyrja í kjölfarið: Er hæstv. ráðherra líka fullur trausts á því að þeim þörfum verði mætt sem brenna á og ekki eru uppfylltar í frumvarpinu eins og það lítur út núna, þ.e. biðlistarnir sem eru að ganga frá fólki (Forseti hringir.) þrátt fyrir þreföld kosningaloforð sem eru rétt orðin ársgömul, (Forseti hringir.) að klára samninga við sérgreinalækna og sjúkraþjálfara, rétta kúrsinn í fjármögnun heilsugæslunnar, svo að fátt eitt sé talið? Eða er hæstv. heilbrigðisráðherra (Forseti hringir.) jafn ánægður með heilbrigðisþátt fjárlagafrumvarpsins eins og fjármálaráðherra er?