Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 16. fundur,  13. okt. 2022.

Fjármögnun heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu.

[11:24]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Það er grundvallaratriði fyrir velferðarsamfélag sem vill standa undir nafni að lögbundin grunnþjónusta sé í senn áreiðanleg og aðgengileg almenningi. Heilsugæslan er ein mikilvægasta grunnþjónusta landsins en hún hefur verið fjársvelt mörg undanfarin ár. Stundum hafa stjórnvöld sagt að heilsugæslunni skulum við raða fremst þegar fjármunum er skipt til heilbrigðisþjónustunnar en eftir áralangt fjársvelti þarf meira til en gert hefur verið og það eru engin merki um slíkt í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár. Fólkið kallar eðlilega eftir aðgengilegri og áreiðanlegri þjónustu en pólitískir draumar ríkisstjórnarflokkanna um aukinn einkarekstur eru í forgrunni þegar þrýst er á um að ófullnægjandi þjónusta sé bætt þó að fjárskortur blasi við. Suðurnes eru nýlegt dæmi um slíkt. Þegar rekstur heilsugæslustöðvarinnar var boðinn út árið 2016 var umræða um þá ráðstöfun ekki tekin á Alþingi. Umræða var ekki heldur tekin á Alþingi þegar ákveðið var að bjóða rekstur heilsugæslu á Suðurnesjum út á þessu ári. Í umræðum um slíka stefnubreytingu hefði átt að ræða helstu forsendur samninga við rekstraraðila og umboð ráðherra frá Alþingi til að gera samninga við einkaaðila um rekstur mikilvægra grunnstoða heilbrigðiskerfisins. Þingmenn þurfa að vera vel upplýstir um kosti og galla ólíkra rekstrarforma og áhrif þeirra á aðgengi og gæði heilbrigðisþjónustunnar, um eftirlit og meðferð á skattfé áður en samningar eru gerðir og svara spurningum fyrir fram líkt og þeirri sem hv. málshefjandi þessarar umræðu leggur fram, um hvaða áhrif það muni hafa ef einkareknar heilsugæslur loka. Hvað gerist ef einkaaðilinn ákveður að hætta? Það er óheillaþróun að pólitískar áherslur ráðherra og ríkisstjórnar um einkarekstur í heilbrigðiskerfinu ráði för án aðkomu kjörinna fulltrúa (Forseti hringir.) þegar stefnan er mótuð um nauðsynlega þjónustu sem varðar líf og heilsu almennings og spurningunni svo velt upp eftir á: Hvað mun gerast ef illa fer?