Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 16. fundur,  13. okt. 2022.

uppbygging geðdeilda.

98. mál
[13:10]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þetta góða mál sem hér er lagt fram í dag. Það er kannski viðeigandi að það sé gert í minningu Hrafns Jökulssonar, sameiginlegs vinar okkar. Ég tek heils hugar undir það sem hér hefur verið sagt og í frumvarpinu felst. Það er í raun dapurlegt að það eru örfá misseri síðan hér fóru að stíga fram þjóðþekktir einstaklingar og viðurkenndu sjúkdóma sína af geðrænum toga, þunglyndi og fleira. Þessi málaflokkur hefur verið umlukinn einhvers konar blöndu af skömm og feimni og það speglast í ástandi kerfisins og húsnæðisins sem í boði hefur verið. Ég held að það sé mjög tímabært að taka höndum saman um að bæta hér úr.

Ég ætla ekki að orðlengja um það að ég styð þetta heils hugar og treysti því að það geri mjög margir aðrir í þinginu.