153. löggjafarþing — 17. fundur,  17. okt. 2022.

heilbrigðisþjónusta vegna endómetríósu.

[15:45]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra svarið. Ég heyri af orðum hæstv. ráðherra að hann hefur metnað til að beita sér fyrir bráðnauðsynlegum umbótum þegar kemur að þessum flókna sjúkdómi og hefur m.a. lagst í mikla greiningarvinnu við að átta sig á ástandinu, en betur má ef duga skal. Hér eins og víðar í íslenska heilbrigðiskerfinu bíða fjölmargir sjúklingar allt of lengi eftir nauðsynlegri og lífsbætandi heilbrigðisþjónustu. Ein brotalöm þar eru auðvitað lög um sjúkratryggingar frá árinu 2008 sem eiga að tryggja það að við förum vel með fjármuni í heilbrigðiskerfinu og nýtum þá sem best, að þau skuli ekki enn vera farin að virka 14 árum eftir gildistöku laganna. Það væri áhugavert að heyra viðhorf hæstv. ráðherra til þessa í þessu samhengi.

Virðulegur forseti. Á meðan þessi vinna stendur yfir við að meta umfang vandans, eins og mér heyrist á hæstv. ráðherra að standi yfir, eins og kom reyndar líka fram í svari hæstv. ráðherra til mín í byrjun þessa árs, hefur hæstv. ráðherra þá skoðað einhverjar aðgerðir, einhverjar úrbætur til að koma til móts við þessa sjúklinga meðan á því stendur?