153. löggjafarþing — 17. fundur,  17. okt. 2022.

heilbrigðisþjónusta vegna endómetríósu.

[15:46]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Seinna andsvar hv. þingmanns kemur ágætlega heim og saman við það sem ég ætla að halda áfram með. Tillögur hópsins sem komu til ráðherra sneru að fræðslu til heilbrigðisstarfsfólks, sneru að skipulagi þjónustunnar við konur sem lifa með sjúkdómnum, frá heilsugæslu til sérhæfðastrar þjónustu, styrkingu teymisins á Landspítala og jöfnu aðgengi að nauðsynlegri sérfræðiþjónustu óháð efnahag og sérstakri athygli á þjónustuþarfir fólks með langvinna verki. Ég bind miklar vonir við — við erum bara á lokametrunum við að koma þessu á, vonandi með samningi Sjúkratrygginga. Það voru fjórar mögulegar leiðir sem voru ræddar í þessu samhengi, þær sneru að reglugerð eða að setja nýja reglugerð, og samvinnu sérfræðings og teymis og heilsugæslu. En svo erum við auðvitað með í stjórnarsáttmála að efla Sjúkratryggingar Íslands sem þjónustukaupa, sem ég held að hafi verið gott skref 2008 þegar ráðherra Sjálfstæðisflokksins kom því skipulagi á, en fjölmargar skýrslur hafa hvatt okkur til að efla Sjúkratryggingar Íslands sem sjálfstæðan þjónustukaupa á íslenskri heilbrigðisþjónustu.