Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 17. fundur,  17. okt. 2022.

Staðan á landamærunum með tilliti til aukins fjölda hælisleitenda og afleidd áhrif .

[16:36]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu sem að þó nokkru leyti hefur verið málefnaleg þó að vissulega séu raddir í þessum þingsal sem slá um sig með einhverjum frösum, eins og hv. þm. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir sem talar um börn á brotajárnshaugum í Grikklandi þegar öll lönd Evrópu viðurkenna Grikkland sem evrópskt land og öll lönd eru að senda flóttamenn sem þar hafa fengið vernd til Grikklands. (Gripið fram í: Nei.) Frumvarpið leysir engan vanda, segir hv. þingmaður síðan. En þetta er sama frumvarp og þau kalla ógeðsfrumvarpið sem á síðan engin áhrif að hafa.

Hv. þm. Logi Einarsson talar um að hneppa fólk í varðhald — ég veit ekki hvaðan hann fær þær hugmyndir, þetta er auðvitað skáldskapur eins og annað sem kemur stundum frá þeim ágæta manni — og að ekki sé verið að misnota kerfið, þrátt fyrir að Europol og lögregluyfirvöld um alla Evrópu segi okkur að verið sé að misnota það þá veit hv. þingmaður betur, og að hér sé rekin harðari og ómannúðlegri pólitík.

Nei, þetta nefnilega snýst ekki um það. Þetta snýst um þá málefnalegu umræðu sem hefur átt sér stað sem betur fer hjá mörgum þingmönnum hér. Við eigum að virða alþjóðasáttmála sem við höfum undirritað. Það stendur ekkert annað til en að virða þá. Við erum ekki að skerða nein kjör þeirra sem hingað koma og hingað eiga erindi. Við eigum að samræma reglur okkar að regluverki Evrópulandanna og Norðurlandanna þannig að við séum ekki að fá hlutfallslega miklu fleiri flóttamenn en aðrar þjóðir í Evrópu. Við eigum bara að sitja við sama borð og taka okkar skerf af því og axla okkar ábyrgð í þeim efnum. Við eigum að taka út sérreglur í okkar löggjöf og okkar reglum sem valda þessari stöðu. Það er ekki verið að biðja um annað. Við eigum að leggja áherslu á að sinna af fremsta megni vel þeim sem við ætlum að skjóta skjólshúsi yfir. Það stefnir því miður í að við ráðum ekki við það og það er hið alvarlega sem við okkur blasir. Við tökum vel á móti þeim — og það er hægt að taka undir (Forseti hringir.) með hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur þegar hún segir að við eigum að bera höfuðið hátt. Við eigum að gera það og getum gert það. (BLG: En eru búðir þar sem þú takmarkar ferðafrelsi ekki einhvers konar varðhald?)