Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 19. fundur,  18. okt. 2022.

Störf þingsins.

[13:33]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Það ríkir alvarlegt ástand í almenningssamgöngum hér á landi. Skortur á leigubílum er viðvarandi vandamál og fólk þarf í síauknum mæli að bíða jafnvel klukkustundum saman eftir slíku fari þegar það á ekki annarra kosta völ. Í fréttum kemur fram að ákveðið hafi verið að leggja niður næturstrætó um helgar. Það að fólk komist heim til sín á öruggan og einfaldan hátt eftir næturlífið er hins vegar ekki eitthvert gæluverkefni, það varðar bæði jafnrétti en ekki síður almannaöryggi. Þegar fólk ílengist í miðbænum í örtröð í misjöfnu ástandi aukast líkurnar á því að eitthvað fari úrskeiðis. Við viljum auðvitað ekki að fólk keyri heim undir áhrifum né heldur þykir það sérstaklega skynsamlegt að stýra rafskútum eftir nokkra kalda svo að það verða að vera aðrir valkostir í boði.

Leigubílar eru vart lengur raunhæfur kostur fyrir þorra fólks sem þarf að komast heim til sín eftir gleði næturinnar. Næturstrætó var tilraun til lausnar á þessu. Þrátt fyrir að tímabilið sem valið var fyrir verkefnið hafi einmitt verið þegar þörfin var sem minnst var ágætis nýting á þessu úrræði. Almenningssamgöngur eru ekki lúxusverkefni, þær eru ekki hagnaðartól. Almenningssamgöngur eru hluti af grunninnviðum samfélagsins. Ítrekað berast fréttir af halla á rekstri Strætó, tapi af rekstri almenningssamgangna, en við tölum ekki um halla á rekstri sjúkrahúsanna eða tap á rekstri grunnskólanna. En þannig er talað um strætisvagnakerfið. Og á sama tíma og ríkisstjórnin hefur dælt hátt í heilum tug milljarða í niðurgreiðslur nýrra raf- og tvinnbíla, fyrst og fremst fyrir vel stætt fólk, þá hefur aðeins einum verið varið í almenningssamgöngur. Það er loftslagsmál, það er jafnréttismál, það er öryggisatriði og það er almannahagur að tryggja almenningssamgöngur fyrir öll.