153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[15:04]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ekki hægt að skilja hv. þingmann öðruvísi en svo að hann vilji opna landamærin og hafa þetta alveg óheft. Hann má hafa þá skoðun. Ég er bara algjörlega ósammála því. (Gripið fram í.) Grundvallaratriðið í þeirri skoðun minni er að ég tel að þegar við tökum á móti fólki í neyð og veitum fólki vernd þá sé gríðarlega mikilvægt að við getum gert það sómasamlega, að við ráðum við verkefnið. Verkefnið eins og það blasir við okkur í dag er að mínu mati við það að verða óviðráðanlegt. Það þarf ekki annað en að tala við sveitarstjórnarfólk um allt land sem hafnar að taka þátt í þessu lengur og ákveðin sveitarfélög sem komin eru að þolmörkum með sína innviði, skóla, leikskóla og félagslega þjónustu, fá ekki starfsfólk til starfa til að sinna þessu og hafa ekki pláss til að taka á móti þessu fólki. Það er það sem er að þegar maður segir að það skipti máli hvort hingað komi hlutfallslega fleiri en aðrir. Með því að gefa eftir í þeim félagslegu réttindum sem felast í að koma hingað og veita umfram aðrar þjóðir í því, þá erum við auðvitað að segja fólki að koma hingað í miklu ríkari mæli og þar erum við hv. þingmaður einfaldlega ósammála.