153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[16:11]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég og hv. þingmaður, og eflaust allir þingmenn á Alþingi Íslendinga, hljótum að vera sammála um að Íslendingar eigi að gera hvað þeir geta til að aðstoða fólk sem stendur höllum fæti, er í hættu, býr við fátækt í heiminum, en við vitum líka að við getum ekki hjálpað öllum. Þegar verkefnið er svona mikilvægt, þ.e. að hjálpa þeim sem eru í neyð, þá hljótum við á einhvern hátt að þurfa að forgangsraða og koma á því kerfi sem er best til þess fallið að gera okkur kleift að hjálpa þeim sem þurfa mest á hjálp að halda.

Hvar vill hv. þingmaður draga mörkin? Hversu mörgum á að taka á móti á Íslandi árlega? Tökum sem dæmi ef 100.000 manns mættu hér eitt árið, allt fólk með kröfu á aðstoð vegna fátæktar, vegna stjórnarfars, eins og í Venesúela, það eru því miður mjög mörg lönd sem búa við slíkt. Á að draga mörkin þar (Forseti hringir.) eða einhvers staðar annars staðar? Eru einhver mörk að mati hv. þingmanns fyrir því hvað við getum gert?