153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[16:59]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég var með hv. þingmanni í ferð allsherjar- og menntamálanefndar til Noregs og Danmerkur og hafði bæði gagn og gaman af þeirri ferð. Hv. þingmaður vísaði til upplýsinga sem við fengum þar. Mig langar að spyrja hv. þingmann, af því að hann er að velta fyrir sér af hverju við tökum svona marga frá þessu ákveðna ríki, hvort hann reki minni til þess að talað hafi verið um það í Danmörku og Noregi að einhver ákveðin ríki, sem aldrei koma hingað, hafi verið áberandi þar, t.d. Erítrea, Sómalía og fleiri ríki sem við fáum engar umsóknir frá en eru mjög fyrirferðarmikil þar? Og jafnvel ekki sömu ríkin í Danmörku og svo í Noregi. Það virðist vera eins og það verði einhver flokkun. Kannast hv. þingmaður við það?