153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[18:24]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og tek undir það að ég held að það skipti máli hvernig við stjórnmálamenn svörum og tölum, ekki bara þeir sem ráða ferðinni, ekki bara stjórnvöld, heldur líka við hin sem tökum þátt í umræðunni í þingsal. Við ættum að taka þetta líka til okkar.

Síðari spurning mín beinist að því sem mér heyrðist hv. þingmaður fullyrða hérna áðan, og ég vona að ég sé að fara rétt með, að fólk flykktist ekki skipulega til þeirra landa þar sem umgjörðin er einmitt þannig úr garði gerð, að það væri bara ekki staðreyndin. Mig langaði að spyrja hv. þingmann hvað hann teldi sig hafa fyrir sér varðandi það að það væri ekki skipulegt að fólk flykktist til slíkra landa. Af því að við höfum dæmi um hið gagnstæða hér, t.d. umsækjendur hingað frá Albaníu 2015–2016 sem var einmitt snúið við með breyttri framkvæmd. Af hverju skyldu einmitt íbúar frá Venesúela, sem fara í gegnum Spán, ekki staldra við þar, þar sem er sameiginleg tunga með þeirra? Af hverju halda þeir áfram alla leiðina til Íslands? Er það út af langvarandi óþoli fyrir sól eða hvað veldur?