153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[21:12]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég hef trú á því að munum komast eitthvað áfram í störfum nefndarinnar. Ég hef enga trú á því, hvorki í þessu máli né öðru, að allir fulltrúar nefndar sem sitja þar frá ólíkum flokkum með ólíka sýn verði einróma í niðurstöðu sinni um einhverja eina lausn. Það er nú sjaldnast í öllum málum í þingnefndum. En ég held að það sé gríðarlega mikilvægt og við þekkjum það úr nefndunum. Þar köllum við fólk á fundi nefndarinnar, þar getum við spurt spurninga, þar geta komið fram athugasemdir sem okkur hefur jafnvel láðst að sjá og í þeirri vinnu taka frumvörpin breytingum.

Ég ætla bara að nota síðustu sekúndurnar til að segja að mér finnst ofsalega gaman að hafa fylgst með hér í dag, klukkustundum saman, þar sem stjórnarandstaðan hefur uppljóstrað um einhvern nýjan sannleik, að Sjálfstæðisflokkur og VG séu ekki með 100% einsleita stefnu í útlendingamálum. (Forseti hringir.) Ég heyrði það ekki fyrst hér en við erum að reyna að vinna okkur að góðri niðurstöðu með hag fólksins í huga.