Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 23. fundur,  26. okt. 2022.

ÍL-sjóður.

357. mál
[17:56]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir sína ræðu. Ekki snúa þessu upp í fortíðarpólitík. Já, ég get tekið undir það. Nú varði hv. þingmaður fyrsta þriðjungi ræðu sinnar í eins konar málsvörn fyrir stjórnendur Íbúðalánasjóðs á sínum tíma. Ég get svo sem alveg tekið undir það. Ég vil kannski fá að spyrja hv. þingmann, í ljósi þess að hann telur að þarna hafi stjórnendur Íbúðalánasjóðs fyrst og fremst fylgt þeim lögum sem hér höfðu verið samþykkt á Alþingi: Er þá ekki nokkuð ljóst að ábyrgðin liggur fyrst og fremst hjá pólitíkusunum, hjá stjórnmálamönnunum sem smíðuðu þetta vonda regluverk sem við erum enn að súpa seyðið af? Munum að Seðlabankinn varaði sérstaklega við og margbenti á þessa miklu uppgreiðsluáhættu sem þarna var hætta á. Sú nefnd sem lagði grunn að breytingum sem voru gerðar á fjármögnununarfyrirkomulagi Íbúðalánasjóðs áður en þetta tiltekna lagafrumvarp var lagt fram lagði til ákveðnar aðgerðir til að sporna gegn þessari uppgreiðsluáhættu sem ekki var brugðist við. Getum við ekki verið sammála um það, einmitt til að horfa fram á veginn og greiða úr þessu í pólitískri sátt, að stóru mistökin hafi verið gerð af stjórnmálamönnum (Forseti hringir.) sem hirtu ekki um að taka mark á málefnalegum aðvörunum, m.a. frá Seðlabanka Íslands?