Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

Rannsókn á Samherjamálinu og orðspor Íslands.

[11:47]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Þetta mál teygir anga sína víða. Íslenskt samfélag hefur t.d. ekki enn þá borið þess bætur né áttað sig á því eða unnið úr áhrifunum af áhlaupi á einstaka fjölmiðla hér á landi í tilraun til að skjóta boðbera frá því að þetta mál komst í hámæli. Þar verða afleiðingar sem við eigum eftir að eiga fullt í fangi með að vinna úr. Þess vegna er þögn íslenskra stjórnvalda svolítið mikið áberandi. Spurning hv. málshefjanda um hvort íslensk stjórnvöld líti málið nógu alvarlegum augum er býsna áríðandi.

Mig langar að víkja að þeim anga málsins sem varðar úttekt á viðskiptaháttum útgerða sem stunda veiðar og eiga í viðskiptum með aflaheimildir í þróunarlöndum. Þessi úttekt var meðal aðgerða sem ríkisstjórnin kynnti haustið 2019 til að auka traust á íslensku atvinnulífi í kjölfar ágjafarinnar sem þetta sama atvinnulíf okkar fékk sem og þjóðin öll haustið 2019 þegar Samherjahneykslið í Namibíu komst í hámæli, þegar fjölmiðlar létu vita. Fyrsti áfanginn átti að vera kortlagning á þeim fiskveiðisamningum sem um er að ræða. Þeim áfanga lauk tveimur árum síðar og þá átti að taka við efnahagsleg greining á samningunum. Síðan átti að greina vandamálin sem til staðar voru í samningunum og í fjórða áfanga átti að beina sjónum að því hvernig hægt væri að koma í veg fyrir að svikastarfsemi líðist. Það væri áhugavert að fá fréttir af því hvar þessi vinna er stödd núna undir lok árs 2022. Er hún yfir höfuð í gangi eða var þetta mál svæft í nefnd?