Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[13:04]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Eins og ég sagði í ræðu minni, ef við stillum vandanum upp á þann hátt að hér bankar upp á flóttafólk sem er vissulega í þörf fyrir vernd, þá erum við ekkert að fara að segja nei við því. Ég held að enginn sem við myndum spyrja, sem ber einhverja virðingu fyrir flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna eða alþjóðasamvinnu eða slíku, myndi hafna því. Þegar ég skoða frumvarpið í því ljósi þá lítur það frekar út fyrir að búa til aðstæður sem auka líkurnar á því að einhver sem bankar hérna upp og á raunverulega rétt á vernd missi af því tækifæri út af einhverri skilvirkni í kerfinu, út af því að kerfinu yfirsjást réttmæt sjónarmið vegna þess að ekki næst að afla gagna sem sannarlega eru til staðar en tímafrestir og fleira koma í veg fyrir að þau komi fram á málsmeðferðartíma viðkomandi. Það eru áhyggjur mínar af þessu frumvarpi í heild sinni í rauninni. Það er ekki útskýrt nægilega vel, eins og hv. þingmaður bendir á, hver vænt áhrif eru af hverri breytingu fyrir sig til þess að við sjáum umfangið, til þess að við skiljum hvernig kerfið er núna, til þess að við skiljum hvaða hluti hverrar lagagreinar skapar vanda sem þessar breytingar laga síðan. Ef það fylgir einhver óskilvirkni einhverju lagaákvæði, hvernig getum við minnkað nákvæmlega þá óskilvirkni? Er sagt nákvæmlega hver sú óskilvirkni er? Þegar það er ekki gert þá er ég skilinn eftir með þá tilfinningu að fólki sem á raunverulega rétt á vernd hér á Íslandi muni verða vísað frá.