Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 27. fundur,  8. nóv. 2022.

umfjöllun nefndar um brottvísanir hælisleitenda.

[14:10]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég ætla aðeins að taka til máls varðandi þetta atriði. Ég er fyrsti varaformaður allsherjar- og menntamálanefndar og varðandi það að eitthvað hafi ekki farið inn í fundargerð vil ég geta þess að ekki er búið að samþykkja þá fundargerð sem um ræðir í nefndinni. Það var fært niður sem síðasta mál á dagskrá í morgun, samþykkt þessarar fundargerðar. Það verður gert á næsta fundi og þá getur hv. þingmaður náttúrlega komið með þessa athugasemd.

Starfsmenn ríkislögreglustjóra komu fyrir nefndina í morgun að beiðni minni til að ræða um þvingaðar brottfarir umsækjenda sem hefur verið hafnað. Við áttum mjög góðan fund með starfsmönnum ríkislögreglustjóra og ég tel að það hafi verið rétt að þeir hafi komið sérstaklega fyrir nefndina en ekki með ráðherra eða fulltrúum Útlendingastofnunar. En ég efast ekki um það og ég styð það heils hugar að ráðherra og fulltrúar Útlendingastofnunar komi fyrir nefndina, helst bara sem allra fyrst. Ég efast ekki um að beiðnin verði samþykkt og það verði framkvæmt sem allra fyrst.