Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 28. fundur,  9. nóv. 2022.

fyrirkomulag matvælaframleiðslu til neyðarbirgða.

397. mál
[18:05]
Horfa

Flm. (Þórarinn Ingi Pétursson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Já, það að eiga forða — það þekktist nú vel að þurfa að eiga eitthvað inni í búri, þegar ekki var hægt að hlaupa út í búð reglulega. Ég er alinn upp í sveit og hef ekki alltaf verið vestan við Vaðlaheiði, eins og maður segir. Ég er alinn upp austan við Vaðlaheiðina og ekki var alltaf hægt að komast reglulega í búðir. Ég þekki vel þá umræðu að eiga eitthvað inni í búri til að geta gripið í ef ekki var ferð í kaupstað. En við skulum líka hafa á hreinu þá miklu blessun sem þessi þjóð hefur búið við mjög lengi, þ.e. að við höfum verið laus við stríðsátök hér á landi. En því miður koma stríðsátök úti í heimi og hamfarir alltaf til með að hafa áhrif á líf okkar.