Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 28. fundur,  9. nóv. 2022.

fyrirkomulag matvælaframleiðslu til neyðarbirgða.

397. mál
[18:21]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F):

Herra forseti. Mig langar að byrja á því að þakka flutningsmanni, hv. þm. Þórarni Inga Péturssyni, fyrir yfirferðina á þingsályktunartillögunni sem snýst um fyrirkomulag matvælaframleiðslu til neyðarbirgða. Þar er lagt til að Alþingi álykti að fela matvælaráðherra að útfæra fyrirkomulag vegna neyðarbirgða landbúnaðarafurða sem hægt sé að framleiða hér á landi við endurskoðun búvörusamninga árið 2023. Þar yrði markmiðið að tryggja lágmarksbirgðir af landbúnaðarvörum í landinu á hverjum tíma. Ég held að þetta sé gríðarlega mikilvæg tillaga og mér finnst við hæfi að nefna að hún spilar auðvitað einnig inn í markmiðið um að tryggja afkomu greinarinnar en á sama tíma, í ljósi aðstæðna, að bregðast við breytingum sem hafa átt sér stað í öryggis- og varnarmálum. Það má líta til margra þátta í því tilliti en hér er fyrst og fremst verið að leggja til að til staðar sé kerfi sem tryggir að hægt sé að framleiða landbúnaðarafurðir hérlendis og í umframmagni, umfram hefðbundna neyslu, en að ríkisvaldið hafi á sama tíma heimildir til að greiða framleiðendum geymslugjald til að geyma umframframleiðslu án þess að hún hafi áhrif á verðmyndun á markaði.

Mér finnst þetta fyrirtakstillaga. Ég held að það skipti mjög miklu máli fyrir okkur að geta tvinnað þetta tvennt saman. Í umræðunni hér í dag, sem hefur verið upplýsandi og góð, hefur verið komið inn á sjálfbærni okkar sem þjóðar. Sjálfbærni skiptir máli og við búum að gríðarlega sterku matvælaframleiðslukerfi hér á Íslandi. Sama er ekki hægt að segja um margar aðrar þjóðir og þess vegna er ærin ástæða til að við höllum okkur að því. Það hefur líka verið nefnt í umræðunni hér að annars konar nauðsynjar þurfi að vera til staðar á hættutímum. Það er hægt að nefna marga þætti í því tilliti. Í tillögunni er m.a. komið inn á kornræktina og mikilvægi hennar. Ég var svo heppinn fyrir allnokkru að geta kynnt mér repjurækt á Suðurlandi. Repja er framleidd og nýtt sem eldsneyti. Við getum sannarlega gert betur varðandi rannsóknir og þróun á því sviði til að mæta fleiri þáttum sem við þurfum að vera sjálfbær með.

Við þurfum að huga að neyðarbirgðum á hverjum tíma og sú skýrsla sem þjóðaröryggisráð beitti sér fyrir að yrði gerð kemur auðvitað inn á mikið af þessum þáttum. En hér er komin tillaga, að mér sýnist, sem getur svo sannarlega mætt einni stórri áskorun í þeirri vegferð að tryggja neyðarbirgðir ef hættuástand kemur upp. Við gegnum í gegnum heimsfaraldur ekki alls fyrir löngu og þá var sú umræða uppi að fæðuöryggi þjóðarinnar þyrfti að vera tryggt. Það er því búið að nefna það í þessum þingsal, og margoft á undanförnum þremur árum, hve mikilvægt er að við kortleggjum betur stöðuna. Við séum í þeirri öfundsverðu stöðu að framleiða mikið magn af mat en við þurfum að geta tryggt geymslu hans. Við þurfum að geta tryggt að það hafi ekki áhrif á markaði. Við þurfum að geta tryggt að við séum að koma til móts við þá aðila sem koma til með að framleiða það umframmagn.

Ég fagna tillögunni, ég er meðflutningsmaður á henni. Ég ítreka þakkir mínar til framsögumanns og vænti þess að þingsályktunartillagan fái góða umfjöllun í kjölfarið.