Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Herra forseti. Ég held áfram á sömu slóðum. Hæstv. fjármálaráðherra hefur látið vinna lögfræðiálit um þá hugmynd sína að setja ÍL-sjóð í þrot. Mörgum stórum, lagalegum spurningum um þessar hugmyndir er ósvarað og þess vegna lagði ég fram ósk í fjárlaganefnd um að lögfræðiálit yrði unnið fyrir Alþingi. Í fyrstu var því vel tekið af meiri hluta nefndarinnar en nú hefur hann hafnað þessu. Það er víst ekki tímabært þrátt fyrir að fjármálaráðherra hafi boðað lagasetningu á allra næstu vikum nái hann ekki fram samningum, ekki tímabært þrátt fyrir að Alþingi muni alltaf þurfa að setja lög í kjölfar samninga ráðherrans við sjóðina, náist einhverjir slíkir samningar.

Grundvallarforsenda þess að þingið geti tekið afstöðu til þessara hugmynda er að lagaleg staða málsins sé ljós. Meginreglan er að samningar skuli standa og spurningin er þá hvað þurfi að koma til til að hægt sé að breyta leikreglum eftir á. Fjármálaráðherra hefur talað eins og tvær ólíkar útfærslur séu í reynd hin sama. Það komi í sjálfu sér út á eitt hvort ríkið standi við skuldbindingar sínar eða ekki. Felst mikil virðing fyrir eignarréttinum í því að ríkið færi tjón sitt yfir á lífeyrissjóðina? Sér meiri hlutinn enga orðsporsáhættu þar? Í skýrslunni um Íslandsbankasöluna, sem við erum að fara að ræða hér á eftir, er rætt um orðsporsáhættu og sá vandi blasir við okkur hér. Ríkið verður að hafa trúverðugleika sem lántakandi gagnvart fjármálamörkuðum og gagnvart almenningi.

Forseti. Þessum spurningum vilja ríkisstjórnarflokkarnir þrír ekki að Alþingi fái svör við: Hver er staða þeirra sem setjast við samningaborð með fjármálaráðherra þegar lagasetning hangir yfir þeim ef samningar nást ekki fram? Hvert er umboð lífeyrissjóða til að semja fyrir hönd skjólstæðinga sinna? Hefur Alþingi yfirleitt heimildir til að setja ríkisaðila í slitameðferð? Þekkist sambærileg nálgun um skuldabréf með ríkisábyrgð? Á eignarrétturinn að víkja þegar fjármálaráðherra þarf að bæta stöðu ríkissjóðs? Það er magnað að hér í þessum sal þurfi að minna meiri hlutann á að hugmyndir þeirra verða að standast lög. (Forseti hringir.) Er það sérstakt markmið ríkisstjórnarinnar, sérstakt markmið meiri hlutans hér í þessum sal, að meiða orðspor ríkisins?