Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[20:13]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég og hv. þm. Eyjólfur Ármannsson erum hjartanlega sammála um að það er hæstv. fjármálaráðherra sem ber fyrst og fremst pólitíska ábyrgð á því að selja Íslandsbanka. Það er fjármálaráðherra sem fær til þess meiri hluta á þingi og hefur forgöngu um málið. Það er fjármálaráðherra sem setur þau markmið sem hafa að stærstum hluta verið mjög farsæl um dreift og fjölbreytt eignarhald. Eftirmarkaðurinn hefur verið góður. Bankinn hefur staðið tilveru sína á markaði mjög vel af sér eftir bæði þessi útboð og við höfum fengið peninga í ríkiskassann til að setja í innviði. Á þessu ber fjármálaráðherra pólitíska ábyrgð, um það erum við alveg sammála. En ég er ekki sammála því að augljóst sé að hann beri ábyrgð á einstaka atriðum sem voru framkvæmd án þess að hann mætti í raun skipta sér af því.