Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[10:49]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. 4.050 millj. kr., 4 milljarðar var lækkun vegna minni fjölgunar örorku- og endurhæfingarþega en forsendur fjárlaga gerðu ráð fyrir, þ.e. færri hafa sótt um örorku hjá TR, segir í frumvarpi til fjáraukalaga. Að sækja um örorku er skelfilegt ferli og enn er sú mýta uppi að hægt sé að sækja um örorku á tíu mínútum með krossaprófi. Það er rangt. Það er niðurlægjandi ferli sem enginn fer í nema hann neyðist til þess. Þegar viðkomandi er veikur eftir langvarandi veikindi eða slys, uppfullur af lyfjum, er hann spurður: Ertu með geðræn vandamál? Hversu alvarleg geðræn vandamál ertu með? Við þurfum að tikka í það box. Flestir svara því ekki. Ég veit um einn einstakling sem svaraði ekki, sagði: Nei, ég er ekkert með geðræn vandamál, og vildi ekki fara að blanda því inn í sín veikindi. Niðurstaðan var sú að hann fékk ekki örorkuna. Hann varð að kæra til endurskoðunar almannatrygginga og fékk þá rétt sinn til örorku. Þetta er eitt mest niðurlægjandi ferli sem hægt er að fara í, að fara í örorkumat hjá Tryggingastofnun eða vegna slysa og það gerir það enginn að gamni sínu. Þess vegna ber okkur skylda til að sjá til þess að þetta ferli sé þannig að það sé einhver stöð sem tekur við fólki og þetta er gert á mannsæmandi hátt. Síðan byrjar hitt ferlið.

4 milljarðar duga fyrir 13. mánuðinum, sem er lægsta greiðsla frá Tryggingastofnun ríkisins til þeirra örorkuþega sem mest þurfa á því að halda í almannatryggingakerfinu og aldraðra. 4 milljarðar myndu duga fyrir nærri 200.000 kr. skatta- og skerðingarlaust útborgað. Á sama tíma kvíðir fólk hátíðunum og fólk á ekki fyrir þeim. Eins og sagði í fréttum í gær:

„Dóttur mína langar að fara á bíókvöld, það kostar þúsund krónur en ég á ekki fyrir því.“ — „Ég er óatvinnuhæfur og endurhæfingarlífeyririnn er ekki að duga mér út mánuðinn.“ — „Er einstæð tveggja barna móðir og öryrki. Ég er því miður rosalega fátæk í þessum mánuði.“

Þetta er paradísin að vera öryrki.