Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

útboð á rekstri heilsugæslustöðvar á Akureyri.

42. mál
[18:26]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin og ég er þess algerlega fullviss að við deilum sýn um það að vilja öfluga, fjölbreytta og góða heilbrigðisþjónustu um land allt. En það er bara mín bjargfasta trú að málum sé betur farið með því að nota fjármagn og þau bjargráð sem við höfum til þess að styrkja hina opinberu, sanngjörnu og réttlátu heilbrigðisþjónustu þar sem við sitjum við sama borð hvar sem er á landinu, hvar sem er í tekjustiganum og hvar sem er í stétt eða stöðu. Það er draumurinn. Við sjáum — og við getum leikið okkur að orðum; einkavæðing eða ekki, einkarekstur eða eitthvað annað — að það sem er tekið úr hinu opinbera kerfi sem á að vera sniðið að öllum og sett í eitthvert einkarekstrarlegt form, hvort sem það er í skólakerfi, heilbrigðiskerfi eða öðru sem ríkið á að standa undir fyrir landsmenn, hefur ekki verið til batnaðar. Það verður skortur á eftirliti. Áfram verður aukin krafa um meira fjármagn, þó að reiknilíkanið verði endurgert 15 sinnum mun verða kallað eftir meiri fjármunum. Þetta ýtir undir ójafnvægi og óréttlæti og ég segi enn og aftur: Ég held að við getum vel náð okkar sameiginlegu markmiðum með því að nýta okkar góðu bjargráð og styðja frekar við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri og heilsugæslurnar á landsbyggðinni. Mönnun einkarekinna heilsugæslustöðva verður dregin lóðbeint út úr hinu almenna kerfi og það verður ekki til að bæta eitt eða neitt.