Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 34. fundur,  21. nóv. 2022.

skjaldarmerki frá 1881 á framhlið Alþingishússins.

43. mál
[17:53]
Horfa

Tómas A. Tómasson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmenn og kæra þjóð. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir frábæra tillögu varðandi útlit Alþingishússins. Ég er einlægur stuðningsmaður þess að gera miðborgina okkar sem líkasta því sem hún var. Ég hef stundum látið fara í taugarnar á mér hvað var farið illa með Búnaðarbankahúsið á sínum tíma. Það var klesst ofan á það einhverri nýmóðins byggingu sem á ekkert skylt við frumbygginguna. Landsbankinn slapp fyrir horn með því að nota svipaða byggingarlist við að stækka sitt hús á sínum tíma og var það bara allt í lagi.

Ég tók á sínum tíma þátt í því að endurbyggja Hótel Borg. Ég gerði eins mikið og ég gat til að borgin fengi sitt upprunalega útlit og ég held það hafi vel til tekist á þeim tíma. Ég vil benda á að hér í þessu húsi, hérna frammi á gangi, er spegill, mikil völundarsmíð, sem langafi minn, Andrés Fjeldsted frá Hvítárvöllum, smíðaði og gaf Alþingi á sínum tíma, í kringum aldamótin 1900. Ég vil bara halda áfram að byggja upp Alþingishúsið í sem upprunalegustu horfi þó svo að við myndum hugsanlega setja upp alls konar skjái og annað dótarí sem myndi henta þingsköpum.