153. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2022.

kaup á nýrri Breiðafjarðarferju.

56. mál
[14:10]
Horfa

Flm. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér þingsályktunartillögu um kaup á nýrri Breiðafjarðarferju og er fyrsti flutningsmaður ásamt þingmönnunum Ásthildi Lóu Þórsdóttur, Guðmundi Inga Kristinssyni, Ingu Sæland, Jakob Frímanni Magnússyni, Tómasi Tómassyni, Ásmundi Friðrikssyni og Þórunni Sveinbjarnardóttur.

Tillagan hljóðar svo: Alþingi ályktar að fela innviðaráðherra að láta kaupa nýja ferju sem verði notuð í reglulegum ferjusiglingum á Breiðafirði. Ferjan uppfylli nútímakröfur um öryggi og þægindi í farþegaflutningum og geti sinnt vöruflutningum fyrir atvinnulíf og íbúa á Vestfjörðum og við Breiðafjörð. Kannaðir verði möguleikar á að ferjan verði knúin endurnýjanlegum orkugjöfum. Vegagerðin hafi virkt samráð við sveitarfélög á Vesturlandi og Vestfjörðum um hvaða kröfur ferjan skuli uppfylla. Þar til ný ferja verður tekin í notkun skuli nýta skipið Herjólf III, skráningarnúmer 2164, í reglulegum ferjusiglingum á Breiðafirði. Hefja skal framkvæmdir á hafnarmannvirkjum á ferjuleiðinni eins fljótt og auðið er til að tryggja að Herjólfur III geti tekið við ferjusiglingum sem fyrst.

Tillaga þessi var áður flutt á síðasta löggjafarþingi, 152. löggjafarþingi, mál nr. 46, en náði ekki fram að ganga og er því flutt hér aftur. Ýmsar umsagnir bárust á sínum tíma, á síðasta þingi, m.a. frá Öryrkjabandalaginu, sveitarfélögum á Vesturlandi og Vestfjörðum og Samtökum sveitarfélaga í landshlutunum og einnig frá fyrirtækjunum Bláma og Carbon Recycling International sem bentu á mikilvægi þess að tryggja að ný ferja yrði knúin endurnýjanlegum orkugjöfum. Í umsögn Vegagerðarinnar kom fram að eftir skoðun hafi ekki þótt hentugt að nýta Herjólf III til afleysinga á skipinu.

Frá árinu 1924 hefur Breiðafjarðarferjan Baldur og forverar hennar með sama nafni stundað reglulegar ferjusiglingar um Breiðafjörð. Ferjan gegnir mikilvægu hlutverki í samgöngum á milli Snæfellsness og Vestfjarða og fyrir Breiðafjörð en Baldur er einnig afar mikilvægur fyrir byggð í Breiðafirði, í Flatey og öðrum eyjum. Hann myndar auk þess mikilvæg tengsl milli byggða á Snæfellsnesi, Breiðafirði og Vestfjörðum sem íbúar njóta góðs af.

Ýmsar úrbætur hafa verið gerðar á vegakerfinu á Vestfjörðum á undanförnum árum. Engu að síður hefur mikilvægi Baldurs ekki minnkað og jafnvel má færa rök fyrir því að ferjuleiðin sé nú mikilvægari en nokkru sinni fyrr. Uppgangur ferðaþjónustu á síðasta áratug hefur skilað þjóðinni verulegum ábata. Mikil uppbygging hefur átt sér stað í ferðaþjónustu á Vesturlandi og Vestfjörðum. Baldur skiptir miklu máli fyrir ferðaþjónustu á svæðinu. Á ferjuleiðinni eru margir áfangastaðir sem vekja áhuga ferðamanna. Flatey er orðin vinsæll áfangastaður fyrir ferðamenn og Brjánslækur er í næsta nágrenni við margar náttúruperlur, eins og friðlandið í Vatnsfirði, Rauðasand, Dynjanda og Látrabjarg. Þá eykur ferjuleiðin einnig aðdráttarafl Snæfellsness þar sem ferðamenn geta þá farið hringinn um Snæfellsnes og í kjölfarið ferðast með Baldri til Vestfjarða.

Dýrafjarðargöng, sem eru komin í notkun, hafa einnig aukið umferð um nýjan veg um Dynjandisheiði sem nú er verið að vinna að og er langt kominn og er fyrirsjáanlegt að Ísfirðingar, Bolvíkingar og fleiri muni þá aðallega aka þá leið suður yfir Dynjandisheiði og Barðaströnd. Mikilvægt er að þeir geti þá valið á milli þess að aka Barðaströndina eða taka Breiðafjarðarferjuna Baldur. Að sigla með Baldri eru mikil þægindi og sparar þriggja tíma akstur.

Baldur hefur verið kölluð brúin til Vestfjarða og á sér langa sögu eins og hér hefur verið sagt. Sagan hófst fyrir 98 árum eða 1924 þegar Guðmundur Jónsson frá Narfeyri keypti gamlan bát til flutninga á farþegum og vörum. Ferjan í dag er engan veginn ásættanleg. Þetta er skip sem er verra en skipin sem voru þar á undan fyrir farþegaflutninga, enda var það fyrst og fremst keypt fyrir vöruflutninga og þungaflutninga og það er klárt mál að þar hafa farþegar verið settir í annað sæti. Þar er gamaldags, gluggalaus matsalur í kili og gömul, slitin og óþægileg sæti undir brú. Núverandi ástand Baldurs uppfyllir engan veginn nútímakröfur. Það stenst hvorki farþega- né öryggiskröfur, eins og fréttir hafa verið af undanfarin ár, a.m.k. tvisvar eða þrisvar, þegar skipið hefur orðið vélarvana, enda vantar varavél í skipið. Það tryggir engan veginn öryggi farþega eins og gera verður í ferjusiglingum í dag.

Fleiri atvinnugreinar en ferðaþjónusta njóta góðs af ferjusiglingum um Breiðafjörð. Má þá nefna laxeldið sem er nú hornsteinn atvinnulífs á Vestfjörðum og á degi hverjum eru hátt í 100 tonn af laxi flutt suður. Útflutningsverðmæti eldisafurða nam 29,3 milljörðum kr. á árinu 2020. Útflutningur á eldisafurðum hefur aldrei verið meiri, sama til hvaða mælikvarða er litið, hvort sem það er í krónum, erlendri mynt eða tonnum. Hlutur Vestfjarða var rúmlega 50% í útflutningsverðmæti eldisafurða árið 2020, um 15 milljarðar kr. Fiskeldi á Vestfjörðum skilar milljörðum króna í þjóðarbúið og innan fimm ára mun ársframleiðsla fara yfir 50 þúsund tonn, helmingi meira en í dag. Það er því gríðarlega mikilvægt fyrir ferjusiglingar með þungaflutninga og farþega að við kaupum skip sem getur þjónað atvinnugreinunum á Vestfjörðum, fiskeldinu og ferðaþjónustunni. Það er gríðarlega mikilvægt að þessar tvær atvinnugreinar fái að dafna á Vestfjörðum með öflugri ferju sem getur þjónað báðum þessum atvinnugreinum, sem og fyrir íbúa.

Eins og ég sagði áðan þá er mjög líklegt að Ísfirðingar og Bolvíkingar og fleiri íbúar við Djúp muni frekar keyra þessa leið suður, þ.e. um Dynjandisheiði og svo Barðaströndina frekar en að fara Djúpið. Íbúar á Vestfjörðum hafa ítrekað bent stjórnvöldum á nauðsyn þess að tryggja öruggar ferjusiglingar á Breiðafirði sem anna eftirspurn og hefur m.a. Fjórðungssamband Vestfjarða ályktað á fjórðungsþingi um málið. Vegagerðin greindi frá því sumarið 2021 að þrátt fyrir ítarlega leit hafi ekki fundist skip til að leysa Baldur af hólmi til skemmri tíma. Vegagerðin lauk þarfagreiningu vegna ferjusiglinga um Breiðafjörð. Samkvæmt henni er reiknað með að þungaflutningar um Breiðafjörð muni aukast úr 35.000 tonnum árlega í 58.000 tonn á næstu fimm árum. Áætlað er að ný ferja muni kosta 4,5 milljarð í smíðum, en til samanburðar kostar nýr Herjólfur 6 milljarða kr. Ný ferja myndi stuðla að atvinnuuppbyggingu á Vestfjörðum, auka samgönguöryggi og minnka umferðarálag á þjóðvegum. Nauðsynlegt er því að grípa strax til aðgerða til að tryggja öruggar ferjusiglingar á Breiðafirði.

Ég má til með að taka fram að Vegagerðin hefur þegar farið í útboð og verður það opnað á föstudaginn. Þar er gert ráð fyrir því að leigja skip til einungis fimm mánaða, frá janúar 2023 til loka maí 2023, með möguleika á að kaupa skip. Ég hef heyrt af því að skipið Røst frá Noregi hafi þótt hæfilegt og passa sem skip fyrir þessa flutninga. En það breytir því ekki að það er mjög mikilvægt að Alþingi Íslendinga lýsi yfir vilja sínum og styðji við þá aðgerð að keypt verði ný ferja sem uppfyllir nútímakröfur um öryggi og þægindi í farþegaflutningum á Breiðafirðinum og geti sinnt vöruflutningum sem þjóna atvinnulífi á svæðinu.

Baldur á 100 ára afmæli árið 2024. Von flutningsmanna er sú að sú afmælisgjöf, ný ferja, berist sem fyrst og við getum haldið upp á 100 ára afmæli reglulegra ferjusiglinga á Breiðafirði með nýrri ferju.