153. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2022.

vistun barna í fangelsi.

[11:01]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P):

Forseti. Í nýlegri frétt er greint frá börnum sem hafa verið sett í einangrun og gæsluvarðhald. Nú síðast í gær var sagt frá því að sá yngsti sem var í gæsluvarðhaldi vegna stunguárásar í miðbænum síðastliðna helgi væri 17 ára gamall. Í október var annar ungur drengur, 16 ára, úrskurðaður í einangrun í fjóra daga. Í kjölfarið felldi Landsréttur úrskurðinn úr gildi vegna þess að ekki hafði komið fram rökstuddur grunur um aðild drengsins að glæpnum. Þessar fréttir eru vægast sagt undarlegar í ljósi þeirra svara sem ég fékk frá dómsmálaráðherra fyrr á árinu við fyrirspurn minni um vistunarúrræði sem standa til boða fyrir fanga undir 18 ára aldri. Í svari ráðherra segir að fangar undir 18 ára aldri skuli vistast á vegum barnaverndaryfirvalda og óheimilt sé að vista börn í fangelsi nema fyrir liggi sérfræðiálit um að það sé þeim fyrir bestu. Í svarinu segir enn fremur að á síðustu fimm árum hafi engin börn afplánað refsingu í hefðbundnu fangelsi. Hér er hugtakið fangelsi þá augljóslega notað í virkilega þröngum skilningi því eins og raun ber vitni vefst ekkert fyrir dómskerfinu að vista börn í einangrun og gæsluvarðhaldi. Til að mynda var 17 ára einstaklingur í einangrun á Hólmsheiði í viku fyrir tveimur árum.

Svo ég tali alveg hreint út þá er einangrun barna mun meira íþyngjandi refsing en fangelsisvist. Ég geng út frá því að hæstv. ráðherra átti sig á þeim óafturkræfa skaða sem þessi meðferð getur haft á börn. Ég vil því spyrja til hvaða aðgerða dómsmálaráðherra hafi gripið til þess að koma í veg fyrir að brotið sé á börnum því að þau ættu aldrei að þurfa að sæta þessari meðferð.