Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2022.

veiðigjald.

490. mál
[11:57]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við teljum í ráðuneytinu, og það kemur raunar líka fram í greinargerð með málinu, að málið sé í grunninn afar öruggt. Til viðbótar aflaði ráðuneytið sér lögfræðiálits um þau álitamál sem þarna eru uppi eins og góð stjórnsýsla á að vera. Maður á bæði að kanna grunninn í sínu ráðuneyti og leita svo utanaðkomandi mats. Álitið var býsna afdráttarlaust um þessi álitamál, þ.e. að frumvarpið væri öruggt hvað þetta varðar. Það breytir því þó ekki að það kann alltaf að vera að einhverjum detti í hug að láta á það reyna. SFS talar auðvitað fyrir hópinn og það er leiðin til þess að eiga þetta samráð. Við höfum enga ástæðu til að ætla af því samráði að einhver slík mál séu í pípunum.