Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2022.

veiðigjald.

490. mál
[12:27]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Hvatning til fjárfestinga, ívilnanir og annað slíkt — ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður telji að á einhverjum tímapunkti hafi allt í einu kviknað ljós hjá þessum stórútgerðum, með alla vasa fulla af peningum, í þessum ívilnunaraðgerðum okkar stjórnvalda og þær hafi ákveðið að ráðast í nýsmíði og alls konar stórframkvæmdir með tilliti til þess. Ég tel að það þurfi aðeins lengri undirbúning að svoleiðis vangaveltum en tvö ár í Covid, en það er önnur saga.

Það eina sem ég bendi á er að það er kannski allt í lagi að alþjóð fái einfaldlega að sjá það svart á hvítu hvernig verið er að senda skilaboð út í samfélagið sem eiga faktískt ekki við nein rök að styðjast. Það er ekki verið að hækka veiðigjöld á næsta ári um 2,5 milljarða, engan veginn. Hins vegar er verið að fletja út kúrfuna eins og þríeykið okkar góða sagði svo gjarnan í Covid-faraldrinum, nú höldum við því áfram í sambandi við sjávarútveginn eins og ég sé það því miður fyrir mér. Mér hugnast ekki þessi vinnubrögð. Ef við vildum raunverulega — ég veit ekki hvort hv. þingmaður er mér sammála um það, en ég vil leyfa mér að ætla það og fæ þá að heyra það frá henni síðar — taka fjármagn frá stórútgerðinni fyrir aðgang að auðlindinni okkar væru þessi ríkisstjórn og ríkisstjórnin þar á undan löngu búnar að gera það. Staðreyndin er sú að þau hafa lækkað veiðigjöldin helling síðan ég kom á þing 2017. Mig langar að biðja hv. þingmann að velta því upp með mér.