153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

alþjóðleg vernd flóttamanna .

[15:26]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi er full ástæða til að fagna því að eitthvert samkomulag hafi náðst um að bæta mannréttindi og lífsgæði í Venesúela undir stjórn Sameinuðu þjóðanna og vinda ofan af þeim áhrifum sem sósíalisminn hefur skapað í því landi. Af hálfu bæði Útlendingastofnunar og kærunefndar útlendingamála er það auðvitað stöðugt endurmetið hverjar aðstæður eru í þeim ríkjum þaðan sem flóttamenn eru að koma til landsins. Það á einnig við um Venesúela og til að mynda veit ég að bæði frá Noregi og Þýskalandi hafa sendinefndir verið að skoða aðstæður í þessum löndum. Við leitumst við að horfa til upplýsinga sem koma fram í þeirra skýrslum og koma þeim á framfæri. Ég veit að þessar stofnanir nýta þær í sinni umfjöllun. Þær skoða gjarnan skýrslur sem berast frá alþjóðastofnunum, einstaka löndum eða öðrum samtökum og auðvitað getur það haft áhrif til breytinga. Einnig hefur verið rýnt í þennan úrskurð kærunefndar útlendingamála varðandi fólk frá Venesúela og skoðað hvernig megi endurskoða málsmeðferðina á þeim grunni, þ.e. miðað við nýjar upplýsingar. Því vonum við það besta í þessum efnum. Það er auðvitað mjög sláandi hversu margir koma hingað vegna þeirrar viðbótarverndar sem hér var nefnd og nær til fólks sem kemur frá Venesúela. Tímabilið sem er gefið hér er lengra en almennt er í Evrópu og því koma sennilega yfir 800 manns frá Venesúela á þessu ári á meðan þá má telja í einhverjum tugum í einstaka Norðurlöndum, svo dæmi sé tekið.