153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

Fangelsismál.

[14:31]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Það er fullt tilefni til að byrja á að taka undir með hv. málshefjanda um hvers konar ófremdarástand það er að fólk sem búið er að dæma til fangelsisvistar skuli þurfa að bíða von úr viti eftir því að fá að hefja afplánun. Þó að stundum sé farið frjálslega með orðið mannréttindabrot nú til dags þá myndi ég skilgreina þetta sem mannréttindabrot, að einhver sem hefur verið dæmdur — auðvitað með öllum þeim afleiðingum sem það getur haft fyrir einstakling — skuli svo vera í viðvarandi óvissu um hvenær megi ljúka afplánun af. Eitt og annað hefur þó verið gert til að reyna að bæta stöðu fanga, eða a.m.k. hefur verið rætt um það. En ekki hefur verið hugað nóg að stöðu fangavarða. Þingmenn fengu hálfgert neyðarkall frá fangavörðum sem útskýrðu að stjórnkerfið hefði ekki fylgt þróuninni sem hefur orðið, þeirri þróun sem þeir fást við dag frá degi. Það hafa lengi komið fram viðvaranir um í hvað stefndi hvað þetta varðar. Ég vil sérstaklega nefna skýrslu ríkislögreglustjóra frá 2017 og svo aftur frá 2019, um umfang og eðli skipulagðrar glæpastarfsemi á Íslandi, þar sem ekkert þeirra glæpagengja sem starfa hér nú virða þau lágmarksviðmið sem íslenskir afbrotamenn virtu a.m.k. að mestu leyti á síðustu öld. Þetta er orðinn gjörbreyttur heimur og fyrir vikið miklu erfiðari vinnuaðstæður fyrir fangaverði svo ekki sé minnst á það sem þeir benda á sjálfir, að þeir þurfi að fást við fólk með töluverð geðræn vandamál.

Ég þarf að nefna nokkur atriði hvað þetta varðar í viðbót, m.a. fangelsið á Akureyri. Mér finnst undarlegt að heyra hæstv. ráðherra slá það út af borðinu að það verði opnað aftur, en það bíður seinni ræðu.