153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

Fangelsismál.

[14:50]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra og hv. þingmönnum fyrir umræðuna í dag og þakka ráðherra fyrir að taka þátt í þessu samtali. „Að bíða afplánunar er eins og að setja lífið á bið,“ hefur verið haft eftir einstaklingi sem þurfti að bíða afplánunar í of langan tíma. Viðkomandi gat ekki snúið við blaðinu, ekki sótt um vinnu og fjölskyldan gat ekki ráðið framtíð sinni varðandi búsetu. Líf þeirra allra var á bið á meðan beðið var. Auðvitað verður lítil betrun úr því þegar þú veist ekki hvort eða hvenær þú verðir kallaður inn. Við þurfum að átta okkur á því þegar við tölum um langa biðlista eftir afplánun að við erum að fresta og mögulega koma í veg fyrir betrun fólks sem hefur á einhverjum tímapunkti í sínu lífi farið út af beinu brautinni. Það er nefnilega svo að jafnvel verstu gæjar geta orðið góðir gæjar, og ég segi þetta vegna orða hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Við höfum líka fengið af því fregnir að þegar harðsvíruðustu glæpamenn sjá ljósið fái þeir til þess tækifæri. Tækifærið kemur frekar ef við sýnum mannúð og mildi. Ef við sýnum fólki að við metum það sem einstaklinga en ekki gjörðir þess. Inni í fangelsum er hópur fólks sem ekki hefur fengið að upplifa það að beina brautin sé fyrir framan þau. Það hefur ekki fengið sömu tækifæri og þess vegna þurfum við að spyrja okkur í byrjun hvað komið hafi fyrir þessa einstaklinga áður en við segjum: Hvað gerðu þau? Hvað veldur því að þau séu komin í fangelsi? Hvað veldur því að þau hafi verið dæmd fyrir alvarlega glæpi? Aftur vil ég þakka fyrir þessa umræðu.