153. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2022.

fjáraukalög 2022.

409. mál
[19:46]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf):

Virðulegi forseti. Nú er komið í ljós að afkoma ríkissjóðs árið 2022 verður umtalsvert betri en gert var ráð fyrir við setningu fjárlaga síðustu jól. Þetta er annað árið í röð þar sem fjárlög draga upp svarta mynd af ríkisfjármálum en síðan reynist staðan mun betri þegar frumvarp til fjáraukalaga kemur til umfjöllunar að hausti. Afkoman reyndist 32 milljörðum kr. betri í fyrra og afkoman reynist 60 milljörðum kr. betri í ár.

Fjármálaráðherra hefur frá upphafi heimsfaraldurs boðað sveltistefnu ríkisfjármála að faraldri loknum. Nú er sú stefna komin til framkvæmda. Til að framfylgja þeirri stefnu er dregin upp eins dökk mynd og hægt er í fjárlagafrumvarpi hverju sinni og síðan kemur í ljós mun betri árangur í frumvarpi til fjáraukalaga um haustið. Þá nýtist þessa aðferð sem eins konar væntingastjórnun. Fjármálaráðherra dregur upp svarta mynd af ríkisfjármálum í upphafi árs en nær alltaf að rétta við skútuna fyrir jólin.

Verðbólga er að nálgast tveggja stafa tölu og Seðlabanki Íslands virðist ekki hafa önnur ráð gegn henni en að fylgjast með tásumyndum á Instagram og stilla vexti eftir því. Sólarlandaferðir Íslendinga til Tenerife valda því að Seðlabankinn þarf að hækka stýrivexti til að berjast gegn verðbólgu og standa vörð um íslensku krónuna. Staðreyndin er hins vegar sú að verðbólgan er að stórum hluta komin til vegna stríðsins í Úkraínu og truflana í framboðskeðjum erlendis. Hinn innlendi orsakaþáttur verðbólgunnar er viðvarandi húsnæðisskortur í landinu. Stýrivextir hafa lítil sem engin áhrif á framboð á húsnæði og verðhækkanir á innfluttum matvörum vegna stríðsins í Úkraínu. Stýrivextir koma ekki nálægt því.

Ríkið hefur tekið verðtryggð lán og því hafa vaxtagjöld ríkissjóðs aukist til muna það sem af er ári um heila 37 milljarða kr. Ákveðin kaldhæðni er fólgin í því að ríkisstjórn sem ávallt hafnar tillögum sem banna verðtryggð lán óski nú eftir fjáraukaheimild til að greiða verðbætur eigin lána.

Samkvæmt frumvarpinu þarf að aukafjárheimild til heilbrigðiskerfisins um 18,4 milljarða kr. Bróðurpartur þeirrar hækkunar, um 14,8 milljarðar, skýrist af auknum kostnaði vegna kórónuveirufaraldursins. Þetta er afar umhugsunarverð hækkun í ljósi þess að í fjárlögum var gert ráð fyrir áhrifum faraldursins og fjárheimildir málefnasviðs 23 auknar um 2,6 milljarða kr. vegna þeirra. Ljóst má vera að fjárlög þessa árs tryggðu engan veginn viðbúnað heilbrigðiskerfisins gagnvart kórónuveiru. Sú mikla hækkun sem hér er til umfjöllunar gefur skýrt til kynna þann fjármögnunarvanda sem heilbrigðiskerfið glímir við.

Þá barst fjárlaganefnd erindi 22. nóvember sl., fyrir nokkrum dögum, þar sem fram kemur ósk fjármálaráðuneytisins um að hækka fjárheimildir ársins um 14 milljarða kr. vegna þess að árið 2016 urðu mistök við breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Þegar A-deild var breytt úr jafnri ávinnslu í aldurstengda ávinnslu var ákveðið að þeir sem ættu réttindi samkvæmt jafnri ávinnslu gætu virkjað þau réttindi næstu 12 mánuði eftir lagabreytingu, þ.e. þeir sem voru hættir að greiða í lífeyrissjóð gátu virkjað geymd réttindi sín. Lögum var breytt eftir samningana sem áttu sér stað þá og þá kom í ljós að 2.000 manns virkjuðu þessi réttindi sín. Fjárhagsáhrif þessarar undanþágu voru ekki metin sérstaklega en nú eru þau metin á 14 milljarða kr. Hver bendir á annan og enginn vill axla ábyrgð á því hvers vegna það uppgötvaðist ekki fyrr en nú að A-deild LSR, þ.e. lífeyrisaukasjóður LSR, væri svo verulega vanfjármagnaður.

Þriðji minni hluti telur málið ekki nægilega upplýst og telur þörf á að afla álitsgerðar áður en breytingartillaga um aukna fjárveitingu til lífeyrisaukasjóðs A-deildar LSR verður samþykkt. Hér er um að ræða umtalsverðar fjárhæðir og vert að Alþingi skoði málið gaumgæfilega áður en gengið er lengra. Treysta verður því að fjármálaráðuneyti og Ríkisendurskoðun rannsaki tildrög þeirra lagabreytinga sem leiddu til aukinna skuldbindinga LSR og ekki síst af hverju láðist að greina og meta áhrif þeirra hvað varðar lífeyrisskuldbindingar LSR sem gætu síðan fallið á ríkissjóð. Hér er um grundvallarmál að ræða sem lýtur að því að fjárveitingavaldið getur ekki sætt sig við það að fjármálaráðuneytið komi á nokkrum dögum til þingsins og óski eftir fjárheimild í fjáraukalögum til þess að brúa gat út af tryggingafræðilegum útreikningum hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Það er algjörlega óásættanlegt og Alþingi ber að veita framkvæmdarvaldinu aðhald og verður að gera það með þeim hætti, þegar beiðni kemur um svona stórar fjárhæðir, að ástæða þess að beiðnin komi fram sé ígrunduð og rannsökuð og einnig ástæða þess hvers vegna málið var ekki metið rétt á þeim tíma. Ég veit ekki til þess að nokkurt mat hafi legið fyrir. Ég hef ekki séð eitt einasta mat um að það hafi legið fyrir. Þetta er handvömm sem ber að skoða. Þetta er ekki flokkspólitískt á nokkurn hátt heldur verður Alþingi sem stofnun að gera þessa kröfu til framkvæmdarvaldsins og ætti þar að notast við sérfræðikunnáttu Ríkisendurskoðunar þegar svona stendur á og fjármálaráðuneytið sjálft þarf að sjálfsögðu að fara í sína eigin vinnu.

Fulltrúar minni hluta fjárlaganefndar hafa sammælst um breytingartillögu sem felur í sér aukna fjárheimild til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til að fjármagna með viðhlítandi hætti framfylgd laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Hér er um að ræða lögbundna þjónustu sem ríkið hefur falið sveitarfélögum að framkvæma án þess að tryggja nægt fjármagn. Þessu þarf að breyta svo að fatlað fólk geti fengið þá þjónustu sem lög kveða á um.

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, lagði fram breytingartillögur við frumvarpið 10. nóvember sl. Í fyrri tillögunni er lögð til 60.000 kr. eingreiðsla til öryrkja og fátækra eldri borgara. Í seinni tillögunni er lagt til 300 milljóna kr. framlag til SÁÁ og 150 milljóna kr. framlag til hjálparstofnana. Fjárlaganefnd hefur sammælst um eingreiðslu til öryrkja að fjárhæð 60.300 kr. og lagt fram breytingartillögu um hana en ekki náðist samstaða um sambærilega greiðslu til fátækra eldri borgara. Það er ánægjulegt að sjá að samstaða sé þvert á flokka um eingreiðslu til öryrkja en að sama skapi dapurt að ríkisstjórnarflokkarnir ætli að skilja fátæka eldri borgara eftir enn einu sinni.

Hvað varðar eingreiðslu til fátækra eldri borgara er vert að minna á að margir eldri borgarar búa við mikla fátækt og ná ekki endum saman. Þeir hópar sem hafa það hvað verst eru konur, sem voru heimavinnandi bróðurpart starfsævinnar og nutu þá talsvert lakari kjara þegar þær héldu út á vinnumarkaðinn, og öryrkjar sem eru komnir á ellilífeyrisaldur. Þessir hópar náðu ekki að safna lífeyri svo að það skili tekjuaukningu þegar frá eru taldar skerðingar almannatrygginga. Fjölmargir eldri borgarar þurfa að reiða sig á berstrípaðan lífeyri almannatrygginga það sem eftir lifir ævinnar. Það er með öllu óboðlegt að ekki sé hægt að finna til litlar 360 millj. kr. í frumvarp til fjáraukalaga til að auðvelda þeim að halda heilög jól, og það þegar boðuð er bætt afkoma um 60 milljarða kr. Sjaldan hefði jafnlítil fjárhæð haft jafnmikil áhrif ef eingreiðsla til fátækra eldri borgara yrði samþykkt. Útlit er fyrir að svo verði ekki. Sýnir þetta svart á hvítu forgangsröðun og áhugaleysi ríkisstjórnarinnar á málefnum þeirra sem minna mega sín.

Eins og áður sagði myndi það kosta ríkissjóð 360 millj. kr. að koma til móts við þennan verst setta hóp eldri borgara. Hvernig getur það vafist fyrir fjármálaráðherra að hjálpa þeim? Hann sem hefur óskað eftir umboði í fjáraukanum upp á 6 milljarða kr. til að fjárfesta í nýrri höll Landsbankans á Austurbakka sem ég kalla Snobbhill og ekkert annað. Það vefst ekki fyrir ríkisstjórninni að lækka bankaskatt um milljarða króna hjá moldríkum fjármálastofnunum sem eru nú í óðaverðbólgu og okurvöxtum að maka krókinn sem aldrei fyrr á kostnað skuldsettra heimila og fyrirtækja. Það hefur heldur ekki vafist fyrir henni að lækka veiðigjaldið á stórútgerðirnar eins og raunverulega var gert á síðasta kjörtímabili. Það er kaldhæðnislegt í meira lagi að ráðherra málaflokksins skuli reyna að réttlæta það hvernig hann ætlar að skilja þennan fátækasta hóp aldraðra út undan með þeim rökum að lögum hafi verið breytt til batnaðar fyrir hann á dögunum. Hins vegar er staðreynd að sá hópur sem breytingartillagan tekur til er ekkert betur settur þótt lögunum hafi verið breytt. Grunnframfærsla hans er sem fyrr langt undir fátæktarmörkum. Hér er um að ræða einstaklinga sem áður voru öryrkjar við 67 ára aldur og hér er einnig um að ræða þennan hóp kvenna sem ég hef áður minnst á, gamlar konur sem í dag eiga engin lífeyrissjóðsréttindi og eru kirfilega múraðar inni í rammgerðri fátæktargildru sem stjórnvöld hafa múrað utan um allt of marga.

SÁÁ hafa rekið hágæðaheilbrigðisþjónustu í góðu samstarfi við hið opinbera um margra áratuga skeið. Því miður hefur það tíðkast undanfarin ár að hið opinbera ætlast til að fá full afköst en aðeins greiða fyrir starfsemina að hluta, full afköst á áfengissjúkrahúsinu sem SÁÁ rekur en einungis fjármagna það að hluta. Nú er starfsemin verulega vanfjármögnuð þrátt fyrir aðdáunarverða fjáröflun samtakanna og sjálfboðaliða þeirra ár hvert. Ef Alþingi grípur ekki í taumana er hætta á því að samtökin þurfi að skera niður þjónustu. Þetta er þjónusta sem ríkið á að sjá um, svo að það liggi fyrir. Víða má finna fordóma gagnvart fíknisjúkdómum og eflaust eiga fordómar sinn þátt í því að samtökin þurfa hvert einasta ár að berjast fyrir fjárframlögum til að halda áfram rekstri sem ríkið hefur samið um að greiða fyrir. SÁÁ eru samtök áhugamanna sem reka mikilvæga þjónustu sem ætti í raun að vera á hendi ríkisvaldsins í öllum velferðarsamfélögum.

Undanfarið hafa fulltrúar hjálparsamtaka sem veita matargjafir kallað eftir auknum stuðningi. Vegna mikillar eftirspurnar geta samtökin ekki aðstoðað alla sem þurfa á hjálp að halda. Fólk fer svangt heim. Oft var þörf en nú er nauðsyn. Með því að styrkja hjálparsamtök um 150 millj. kr., eins og lagt er til í breytingartillögu Ingu Sæland, mætti gera kraftaverk, enda færu fjármunirnir óumdeilanlega þangað sem þörfin er mest. Hér er grundvallarmál sem íslenskt samfélag, eitt ríkasta samfélag heims, þarf að taka utan um. Þetta er grundvallarmál. Fátækasta fólkið þarf að bíða í biðröðum eftir því að fá mat frá hjálparsamtökum og við hér í fjáraukanum, rétt fyrir jól, finnum ekki í okkur að veita fjárheimild upp á 150 millj. kr. til allra fátækasta fólksins, þess sem stendur í röðum til að fá matargjafir fyrir jólin. Þetta eru smápeningar í samhengi íslenskra fjárlaga og líka í samhengi fjáraukalaga þar sem við erum að fara að greiða 14 milljarða kr. út af mistökum við lagasetningu, mistökum fjármálaráðuneytisins og mistökum sem áttu sér stað í þessu húsi við undirbúning löggjafarinnar. Á endanum ber Alþingi Íslendinga ábyrgð á þeim lögum sem það samþykkir. Það er enginn annar sem gerir það. Það er ekki fjármálaráðuneytið sem gerir það á endanum. Fjármálaráðherra ber pólitíska ábyrgð gagnvart okkur í þessu húsi og það er Alþingi sem ber ábyrgð á þeim lögum sem það samþykkir. Núna kemur í ljós að lög sem voru samþykkt á sínum tíma leiða til tjóns og kostnaðar upp á 14 milljarða kr. Svona mál koma fyrir aftur og aftur. Við sjáum þetta í ÍL-sjóði, þar eru 100 milljarðar undir, og við sjáum þetta í bankasölunni, þar er verið að selja banka án nægilegs undirbúnings. Við erum ekki að ræða þetta til að koma höggi á núverandi fjármálaráðherra, hann sat ekki á þeim tíma þegar þessi lagabreyting átti sér stað og hann var ekki fjármálaráðherra þegar skuldabréf ÍL-sjóðs voru samþykkt. Á sama tíma getum við ekki veitt eldri borgurum 360 millj. kr. sem myndu hjálpa um 6.000 eldri borgurum, við getum ekki heldur hjálpað þeim fátækustu og við getum ekki veitt peninga til SÁÁ, til áfengissjúkra sem eru á sjúkrahúsi sem er rekið á grundvelli samnings við ríkið sem er vanfjármagnaður.

Þetta er ekki það samfélag sem við höfum óskað eftir og við eigum ekki að þurfa að leggja fram breytingartillögur við fjáraukalög og fjárlög hvað þetta varðar. Við eigum einfaldlega að fullfjármagna hjálparsamtök sem veita gjafir fyrir jólin og við eigum líka að veita fátækasta hópi samfélagsins þá eingreiðslu sem hann á skilið, ekki bara öryrkjum. Það ber að þakka að við náðum þessari breytingartillögu í gegn, hún var reyndar ekki undir okkar nafni en samstaða náðist innan fjárlaganefndar um að gera þetta með þeim hætti sem nú er gert. Það breytir því ekki að tillaga Flokks fólksins stóð fyrir sínu og ég tel að hún hafi skapað þrýsting til að málið næði fram að ganga. En það náðist ekki fyrir eldri borgara og það er mjög miður. Ég þakka hins vegar fyrir góða samvinnu innan fjárlaganefndar sem hefur átt sér stað í haust og ég er bara hryggur yfir því að hin þrjú atriðin sem voru í breytingartillögu formanns Flokks fólksins hafi ekki náð fram að ganga. Svona er lífið, en Flokkur fólksins mun halda áfram að berjast fyrir þessum málum. Til þess var hann stofnaður. Við erum ekki hætt.