153. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2022.

fjáraukalög 2022.

409. mál
[20:03]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég hef litlu að bæta við það sem hv. þingmaður og flokksbróðir minn, Eyjólfur Ármannsson, sagði í sinni ræðu á undan mér og hér hefur margt mjög svo skeleggt komið fram hjá öðrum ræðumönnum einnig. Þegar við veltum því fyrir okkur hvernig stendur á því að það er mögulegt að skilja fólk í sárri fátækt út undan þá verður mér í rauninni algerlega orða vant. Ég get ekki skilið þann guðlega mátt, ef svo má að orði komast, sem verður þess valdandi að reynt er að réttlæta það að 360 millj. kr. séu í rauninni ekki til þess fallnar að styrkja þetta gamla fólk vegna þess að lögum um eldri borgara hafi verið breytt og náð fram að ganga 1. janúar 2017. Það voru reyndar lögin sem felldu burt hina svokölluðu krónu á móti krónu skerðingu. Og jú, fyrir stóran hluta eldra fólks voru þau lög til bóta. En sá hópur sem ég er að biðja um að fái sömu umbun núna fyrir jólin og öryrkjar, 60.300 kr., eru þeir tæplega 6.000 eldri borgarar sem þessi breyting á lögunum hefur ekkert að segja fyrir. Eins og kom fram er þetta hópur einstaklinga sem á einni nóttu varð 67 ára gamall, fór úr því að vera öryrki og vaknaði alheilbrigður, á hann uxu fætur ef þá hafði vantað daginn eftir, ég fæ náttúrlega sjónina líka þegar ég verð 67 ára gömul. Ýmisleg önnur kraftaverk áttu sér stað akkúrat kl. 12 nóttina sem þetta fólk gekk úr því að vera öryrkjar yfir í það að verða ellilífeyrisþegar. Ellilífeyrisþegi er með lægri grunnframfærslu frá Tryggingastofnun en öryrki. Það er þessi hópur, virðulegi forseti, sem ég er að segja að við getum ekki verið þekkt fyrir að skilja út undan eina ferðina enn. Það eru engin rök, engin einustu rök sem mögulega geta mælt með því, engin. Hinn hluti hópsins, eins og hv. þm. Eyjólfur Ármannsson bendir á, eru fullorðnar konur sem eyddu sinni starfsævi í það sem oft hefur verið kallað vanþakklátt starf og við fengum nú oft að finna fyrir sem heimavinnandi húsmæður. Þetta eru konur sem áunnu sér engan lífeyrisrétt. Þetta eru þær konur, ömmurnar okkar og langömmur okkar, sem lifa eingöngu á berstrípaðri framfærslu almannatrygginga eins og hún er nú gæfuleg. Sú framfærsla heldur þessu fólki í sárri fátækt. Sú framfærsla, þrátt fyrir að halda þessum einstaklingum í sárri fátækt, er skattlögð af ríkisvaldinu, sárafátækt fólk er skattlagt af ríkisvaldinu. Það myndi sennilega sökkva þjóðarskútunni ef við sýndum þeim þá virðingu að hætta að kreista úr þeim lífsandann sem lítill er fyrir. Það er algjör þjóðarskömm að skattleggja fátækt. Ég er ekki enn búin að gefa upp alla von um að allt í einu taki stjórnvöld kíkinn frá blinda auganu og skoði það sem ég er að segja og benda á sem lýtur að bágindum þessara tæplega 6.000 eldri borgara. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að þetta verði látið fara svona í gegn.

Og hvað líður breytingartillögu minni um 300 millj. kr. greiðslu í fjárauka til SÁÁ? Það vill svo einkennilega til að jafnvel fjármunir sem á nú þegar að vera búið að greiða til SÁÁ á árinu 2022 hafa ekki enn þá skilað sér, sællrar minningar, þegar ég sat sem annar varaformaður fjárlaganefndar í fjárlaganefnd þá fór í rauninni bara allur veturinn minn í það að kalla eftir þeim stuðningi og þeim fjárveitingum sem fjárveitingavaldið hafði þegar samþykkt hér í þessum þingsal að veita til SÁÁ. Ég þurfti að berjast fyrir því fund eftir fund, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð. Ég átta mig ekki á þessu, mér er þetta algjörlega hulin ráðgáta. Við erum fjárveitingavaldið hér. Ef við segjumst ætla að leggja fram 100 milljónir og við samþykkjum það öll þá á að standa við það. Það vantar núna 300 millj. kr. í starfsemina á Vogi og starfsemi SÁÁ til að þau geti unnið nákvæmlega samkvæmt því sem þau þurfa að gera til að mæta þeim bágindum sem eru úti í samfélaginu vegna fíknar og drykkjusjúkdóma. Yfir 700 manns eru enn á biðlista eftir því að komast inn á Sjúkrahúsið Vog. Í hverri einustu viku deyr einstaklingur vegna fíknisjúkdóma, mannauðurinn okkar er að fjara út að ástæðulausu vegna þess að að stærri hluta þá er þetta fólk í blóma lífsins. Það er ekki einu sinni eins og það sé tekið heildstætt á þessum hrikalega vanda vegna þess að það eru engin heildstæð úrræði til fyrir þetta fólk. Það kemur í góðum vilja og biður um hjálp. Það þarf mikið átak til að viðurkenna vanmátt sinn gagnvart áfengi og öðrum vímugjöfum. Það þarf mikið átak þegar einstaklingurinn er kominn þangað, að viðurkenna vanmátt sinn, en því miður eru skilaboðin þá oft þannig: Bíddu, vinurinn, þú getur komið hérna inn eftir þrjá mánuði, haltu bara áfram að dópa, haltu áfram að drekka, hér er ekki pláss fyrir þig. Er það virkilega svona sem við viljum hafa samfélagið?

Mig langar að benda á eitt enn í sambandi við fíknisjúkdóma. Ég tala af eigin reynslu af mjög svo nánum ástvinum og fólki sem mér þykir vænt um og vinafólki sem ég hef verið að hjálpa. Ég tala af eigin raun þegar ég horfi upp á fordómana sem mæta þessu fólki, jafnvel hjá heilbrigðisstarfsfólki. Að hugsa sér. Það gengur það langt að á sama tíma og hér er sagt að það eigi að viðurkenna þetta sem sjúkdóm, að fíkn sé sjúkdómur, á sama tíma og allir eru skráðir inn í gagnagrunn heilbrigðismála í hvert einasta skipti sem þeir þurfa að leita inn á Vog og annað slíkt — þegar verið er að fletta þeim upp þá kemur: Já, já, þú ert bara fyllibytta, einmitt, þú ert náttúrlega búinn að fara tíu sinnum í meðferð. Þarft þú ekki bara að hætta að drekka? Mikið væri það nú ofboðslega gott ef það væri hægt að gefa bara eina B-vítamínpillu og segja bara: Það er ekkert annað að þér en að þú ert bara fyllibytta og þú þarft að hætta að drekka. En sjáðu til, þó svo að þú sért búinn að vera í mánuð eða tvo mánuði í meðferð þá áttu á sama tíma engan rétt á læknisvottorði. Einhverra hluta vegna þá átt þú ekkert að fá greitt fyrir það ef þú ert að leita lækninga í meðferð. Hvað mætir einstaklingi, sem virkilega fær að leita sér hjálpar og fær jafnvel langtímameðferð, þegar hann kemur út? Hvað er það? Ekki neitt. Starfsendurhæfing VIRK hefur ekki viljað sjá hann. Búsetuúrræðin eru til vandræða. Einhverra hluta vegna gleymist það oft að einstaklingurinn á íbúð sem hann þarf að greiða af. Hann er að leigja íbúð. Hann þarf að borga sína skatta og skyldur, hann er með rafmagn, síma, sjónvarp og heitt vatn, meira að segja alkóhólistar búa þannig, flestir til guðs lánsins. En nei, þegar þessi einstaklingur kemur út í samfélagið á ný þá er nánast ekkert sem tekur við honum vegna þess að ríki og borg og bæjarfélögin hafa ekki tekið saman höndum til þess virkilega að hjálpa þessu fólki út í samfélagið á ný, virkja þennan mannauð, og halda utan um það þannig að það sé ekki alltaf að falla og falla og þurfi að leita sér aftur meðferðar. 300 millj. kr. til SÁÁ, það er ekki einu sinni svaravert, virðist vera hér. Það er bara sagt: Þetta heyrir ekki undir fjárauka, þetta á að vera í fjárlögum. Jú, SÁÁ er með á aðra milljón kr. á föstum fjárlögum. Ég er að óska eftir 300 milljónum meira núna fyrir árið 2022 og það er það sem fjáraukinn er. Fjáraukalögin sem við erum að fjalla um hér og nú eru viðbótarfjármagn við fjárlögin sem á að koma til núna fyrir árið 2022.

Virðulegi forseti. Þetta er sárara en tárum taki og á sama tíma, eins og hv. þm. Eyjólfur Ármannsson benti á hér áðan, horfum við upp á umboðsbeiðni hæstv. fjármálaráðherra um að fá 6 milljarða kr. til að kaupa í Snobbhill hér á Austurbakka, nýju fínu höll Landsbankans á dýrustu lóð á landinu. Þessir 6 milljarðar eru meira að segja meira en öll viðbyggingin hér við Alþingishúsið kostar með öllum skrifstofum, bæði starfsmanna, þingmanna og fastanefnda þingsins. Hver er að tala um það? Á sama tíma er allt í lagi að lækka ekki bara veiðigjöldin sem hafa verið lækkuð á síðasta kjörtímabili heldur bankaskatt hjá bönkum sem eru sennilega búnir að þéna á þriðja hundrað milljarða kr. síðan árið 2018 í hreinan hagnað. Þá er bankaskatturinn bara lækkaður. Við erum að biðja um 300 millj. kr. til SÁÁ. Við erum að biðja um 360 millj. kr. fyrir gamalt fólk sem á ekki fyrir salti í grautinn og ég er að biðja um 150 millj. kr. fyrir hjálparsamtök sem gefa fátæku fólki mat.

Er þetta mannvonska, virðulegi forseti. Hvað í ósköpunum er það? Ég gleymi því ekki þegar ég sat í fjárlaganefnd þegar þangað kom einstaklingur og bað um 180 milljónir til að geta gefið minkum að éta. Það voru einhver bágindi hjá minkabændum og þá vantaði fóður. Ég ætla ekki einu sinni að láta ykkur geta upp á því hver útkoman var með það. Þær 180 milljónir voru auðsóttar í ríkissjóð. Þær voru skírðar einhverju öðru nafni vegna þess að hitt var einum of kaldhæðnislegt.

Fulltrúar hjálparsamtaka sem ég hef haft samband við segja núna: Því miður eru það margir í röðinni að biðja um mat þegar við erum að úthluta daglega að við þurfum að loka á fólk án þess að það hafi fengið pokann sinn með mjólkinni og brauðinu. Þetta er Ísland í dag. Hvernig í ósköpunum getum við verið þekkt fyrir að koma svona fram við fólkið okkar? Hvernig er það bara mögulegt? Ég skil það ekki. Að við skulum þurfa að vera hér fyrir hver einustu jól núna og öskra og æpa og biðja um hjálp fyrir þá sem eiga bágast í samfélaginu þegar staðan hlýtur að liggja algjörlega á borðinu. Ef hæstv. ríkisstjórn er ekki bara hreinlega meðvitundarlaus þá hljóta þau að sjá hvernig ástandið er raunverulega úti í samfélaginu. Það fer ekki fram hjá neinum. Við erum ekki að tala fyrir þá sem hafa það gott. Ég er ekki að tala fyrir þá sem taka varla eftir því þó að hér sé 9,3% verðbólga eins og hún er að mælast akkúrat í dag og vextirnir komnir í tæp 8% á láninu mínu. Þó að afborgunin mín hafi hækkað um 50% frá því í vor þá hef ég efni á að borga hana. En það er ekki hægt að segja það sama um láglaunamanninn. Það er ekki hægt að segja það sama um öryrkjann og eldra fólk sem á ekki fyrir salti í grautinn. Þetta er fólkið sem grætur sig í svefn á hverju einasta kvöldi og kvíðir því að vakna á morgun. Þetta er fólkið sem hæstv. ríkisstjórn heldur í svo rammgerðri fátæktargildru að það á enga möguleika á því að rjúfa skarð í hana. Enga. Þetta er með slíkum ólíkindum.

Flokkur fólksins hefur mælt fyrir tillögu um 400.000 kr. framfærslu frá Tryggingastofnun, skatta- og skerðingarlaust. Við þyrftum þá ekki alltaf að vera að hrópa hér og biðja um jólagjafir og bónusa, eingreiðslur og einhverja viðbót. Okkur ber skylda til að sjá til þess að fólkið okkar líði ekki skort. Seðlabankastjóri vogaði sér að segja um daginn, þegar hann var að réttlæta 25 punkta hækkun á stýrivöxtum í Seðlabankanum, að það væri vegna þess að við værum að svamla um á Tenerife og skoða á okkur tærnar í sólinni. Það var reyndar alveg ótrúleg framsetning. Fólkið sem ég og Flokkur fólksins er að berjast fyrir er ekki á Tenerife. Það kemst ekki einu sinni í sumarfrí innan lands. Þetta fólk er ekki bara hneppt í fátæktargildru og er fast þar, það er hreinlega múrað inni heima hjá sér því það hefur ekki efni á að kíkja út fyrir bæjarmörkin. Svo státum við okkur af því að vera eitt ríkasta land í heimi en hér má öllum vera augljóst að forgangsröðun fjármuna er svo sannarlega ekki fyrir fólkið fyrst, það er langt í frá. Það virðist vera hægt að forgangsraða fjármunum þangað sem þeir eru fyrir, þar sem allar hirslur eru sneisafullar af gulli, þar sem allir vasar eru úttroðnir af peningum eins og hjá stórútgerðinni og bönkunum. Það er allt í lagi að halda áfram að maka krókinn fyrir þá.

Það er tímabært, virðulegi forseti, að við tökum utan um þá sem við virkilega þurfum að hjálpa. Hér eru 63 þingmenn. Minni hlutinn og stjórnarandstaðan hefur náttúrlega lítið að segja en það er alla vega gleðilegt að fjárlaganefnd skyldi taka til greina breytingartillögu mína við fjáraukann. Þau ætluðu upphaflega að hækka til öryrkja um 27.700 kr. Ég óskaði eftir því í minni breytingartillögu að það færi í 60.000 kr. Ég bauðst til að taka þá tillögu til baka eins og vindurinn ef þau skildu ekki gamla fólkið út undan, ef það fengi að vera með. En það var ekki hægt. Þannig að nú erum við búin að samþykkja, öll fjárlaganefnd eins og hún leggur sig, enda gæti líka enginn verið á móti því, 60.300 kr. Já, þarna sveifluðust fram 300 kr. til þess að menn þyrftu ekki að vera á pari við mína breytingartillögu, enda var það ekki hægt, þá hefði orðið að samþykkja hana og þá hefði Flokkur fólksins hlotið þessa svaka rós í hnappagatið fyrir að koma með þessa frábæru breytingartillögu. En eins og ég hef ævinlega sagt: Okkur í Flokki fólksins er nákvæmlega sama hvaðan gott kemur. Það má taka öll okkar mál og við skulum gefa þau öll frá okkur, við þurfum enga rós í hnappagatið. Það eina sem við erum að gera er að berjast fyrir þá sem eiga bágt. Við óskum eftir því að allir sem hér eru, allir sem hér starfa, kjörnir fulltrúar, taki höndum saman og hjálpist að við að gefa öllu fólkinu okkar kost á því að taka þátt í þessu samfélagi með þokkalegum sóma. Það er enginn að tala um stórbokkahátt. Það er enginn að tala um neitt annað en fæði, klæði, húsnæði. Og núna, eins og allir vita, þegar jólamánuðinn er að nálgast þá er það ríkt í okkur, í huga okkar, í hjarta okkar, í sálu okkar, að jólin séu hátíð fjölskyldunnar þar sem við viljum fá að vera í faðmi fjölskyldu og vina og við viljum geta glatt hvert annað, gefið litlar gjafir, sett pakka undir jólatréð. Dettur nokkrum manni í hug að fátæk amma eða fátæk langamma eða þeir eldri borgarar sem ég er hér að óska eftir aukafjárveitingu fyrir — dettur nokkrum í hug að þau geti svo mikið sem keypt húfu handa barnabarninu sín í jólagjöf ef þau eiga ekki einu sinni val um það hvað þau fá sér að borða um jólin af því að þau hafa ekki efni á því, fólkið sem er að spara daginn út og inn? Þetta er fólkið sem þarf að velja í lok mánaðar hvort það leysir út lyfin sín eða fær sér mat á diskinn. Ég er að tala um fólkið sem stendur í röðum, virðulegi forseti, til að biðja um mat hjá hjálparstofnunum. Ég óska þess af öllu hjarta að það verði tekið utan um þessi mál og við getum gengið hnarreist inn í jólahátíðina öll sem eitt, ekki bara sum.