Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[22:11]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég vil kannski fyrst segja, af því að hv. þingmaður bendir á hvers vegna við förum fram með þetta núna þegar viðræðum um kostnaðarskiptinguna er ekki lokið á milli ríkis og sveitarfélaga, að það er einmitt vegna þess að ég tel að fatlað fólk eigi ekki að bíða lengur eftir þeim umbótum sem fleiri samningar fela í sér. Þess vegna hef ég barist fyrir því að við fáum fleiri samninga í gegn og hef náð að áorka því að við erum alla vega búin að tryggja fjármagn á næsta ári fyrir vonandi 50 nýjum samningum. Síðan megum við heldur ekki gleyma því að margt það fólk sem fer inn í NPA-þjónustu er að fá þjónustu heima frá sveitarfélögunum í dag. Það færist síðan yfir í NPA með auknum fjölda samninga en það veldur ekki þeim sama kostnaðarauka fyrir sveitarfélagið og manneskja sem er ekki í þjónustu þegar hjá sveitarfélaginu. Því er það líka þáttur sem við þurfum að hafa í huga.