Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

Störf þingsins.

[13:52]
Horfa

Andrés Skúlason (Vg):

Hæstv. forseti. Ráðstefna Sameinuðu þjóðanna um líffræðilegan fjölbreytileika, COP15, verður haldin í Montreal dagana 7. til 19. desember. Þar verður m.a. til umfjöllunar útrýming tegunda og hrun vistkerfa. Rannsóknir hafa sýnt grafalvarlega stöðu. Loftslagsbreytingar og hnignun líffræðilegrar fjölbreytni eru staðreynd vegna ágangs mannkyns, auk þess sem menningarminjar eru víða í hættu vegna veðuröfga. Við slíkar aðstæður hafa helstu lykilstofnanir okkar mikilvægu hlutverki að gegna. Sem dæmi: Menningarminjar hafa ekki verið skráðar nema á 30% af flatarmáli Íslands en viðmiðunarþjóðir hafa lokið skráningu. Á sama tíma hækkar sjávarstaða og þá hafa skriðuföll aukist jafnt og þétt sem ógnar mörgum minjasvæðum. Rannsóknum í efnahagslögsögu okkar er lítið sinnt nema með mælingum á stærð helstu nytjastofna. Rannsóknir á öðru lífríki sjávar ásamt mengun eru vart til staðar. Að óbreyttu mun það taka 50–70 ár að ljúka jarðfræðikortlagningu hér á landi og það á einhverjum merkilegustu jarðlögum sem fyrirfinnast. Jarðfræðikortlagningu er nærri lokið hjá öllum Evrópuþjóðunum.

Það má spyrja: Er ekki ástæða til þess að rannsaka fyrst það sem er undir fótum okkar áður en ráðist verður í óafturkræf náttúruspjöll á ósnortnum heiðarlöndum sem nú er verið að markaðssetja dýrum dómi? Rannsóknir á áhrifum vindorkuvera á íslenska náttúru og samfélag liggja ekki fyrir hér á landi. Við eigum með öðrum orðum ekki svör við því hvar við stöndum í margvíslegu tilliti af því að við þekkjum einfaldlega ekki umhverfi okkar og land nógu vel vegna skorts á heildstæðum rannsóknum. Það að sinna ekki grundvallarrannsóknum á tímum loftslagsbreytinga og hnignunar líffræðilegrar fjölbreytni er beinlínis til þess fallið að seinka nauðsynlegum aðgerðum til handa komandi kynslóðum.