Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:35]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Svo því sé til haga haldið þá missti ég því miður af ræðu hv. þingmanns en ég er búinn að hlusta á drjúgan hluta hennar og mun hlusta á hana í heild sinni áður en dagurinn er liðinn. Ég spurði hv. formann fjárlaganefndar í gær í andsvari við framsögu nefndarformannsins hver skiptingin væri á milli útgjaldaaukningar, reksturs, versus fjárfestingar. Það kom mér sannast sagna nokkuð á óvart — og ég biðst afsökunar, hv. formaður nefndarinnar situr hér í hliðarsal en hún fær tækifæri til að ná mér síðar í andsvari og ég henni ef þannig ber undir — að það lægi ekki fyrir greining á því hvernig þessi útgjaldaaukning skiptist milli fjárfestingar annars vegar og reksturs hins vegar.

En varðandi orð hv. þingmanns um að efnahagslífið hefði stutt við efnahagsbatann og þróun efnahagsmála hefði stutt við tekjuhliðina á liðnu ári þá er það bara sem betur fer rétt og maður getur ekki annað en vonað að það verði framhald þar á. Í því samhengi eru auðvitað atriði sem ég hefði getað nefnt áðan varðandi það með hvaða hætti við gætum stutt við afkomu ríkissjóðs. Þá eru það til að mynda þættir sem snúa að því að styðja við og koma áfram virkjunum í landinu til að atvinnuuppbygging geti orðið með sem öflugustum hætti. Það er hlutur sem hefur gengið mjög hægt að vinna áfram. Sem betur fer kláraðist nú 3. áfangi rammaáætlunar hér nýlega en það eru margir þættir þar sem ég hef haft á tilfinningunni að samsetning ríkisstjórnarinnar þvælist fyrir gagnvart því að við náum árangri til að komast áfram.