Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[17:14]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristrún Frostadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði að byrja á fangelsunum en ég verð eiginlega að fara aðeins út í heilbrigðismálin fyrst vegna þess að mig langar að taka upp þráðinn þar sem hv. þingmenn skildu við hann áðan og fá í þessu samhengi viðbrögð frá hv. þingmanni við þeirri stöðu sem upp er komin hjá Sjúkratryggingum. Við fengum Sjúkratryggingar á fund til okkar í fjárlaganefnd og ég vænti þess að hv. þingmaður hafi lesið umsögn Sjúkratrygginga þar sem fram kemur að þau hefðu þurft 200 millj. kr. til þess í rauninni bara að viðhalda lögbundinni þjónustu eða sinna sínum verkefnum og þau tala sérstaklega um hvað þurfi til að efla þjónustuna. Nú erum við að tala um stórsókn og viðbót og allt þetta, en til að efla þjónustuna og getu stofnunarinnar hefði þurft 400 millj. kr. Hún fékk 100 millj. kr. í þessu tilviki. Meiri hluti fjárlaganefndar fór þá leið til að mynda í tengslum við löggæsluna, sem ég held að flest okkar styðji, að bæta til viðbótar við ákveðnum fjármunum, en það var ákveðið að gera það ekki í tilviki Sjúkratrygginga. Við heyrðum líka á fundi Sjúkratrygginga, og það hefur komið fram í fjölmiðlum síðan þá, að það væri í rauninni verið að spara aurinn og kasta krónunni með því að fjársvelta þennan hluta rekstursins. Þetta væri hluti heilbrigðiskerfisins sem væri í rauninni að spara ríkissjóði fjármuni ef rekstrarfé væri nægt vegna þess að þarna færi fram aukið eftirlit sem kæmi í veg fyrir að það væru stundaðar ofrukkarnir í kerfinu og sóun á útgjöldum. Í ljósi þess að við erum að tala um 12,2 milljarða, sem væri reyndar hægt að sundurliða með öðrum hætti en stjórnarliðar gera endrum og eins í þessari viðbót í 2. umr., velti ég fyrir mér hvers vegna ekki var hægt að finna 300 milljónir, hvað þá 100 milljónir, til viðbótar til að styrkja rekstur Sjúkratrygginga.