Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[19:50]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og segi bara þetta: Mannúð, ekki mannúð, það er einhvern veginn eins og það fari ekki saman pólitík og mannúð. Ég veit ekki út af hverju. Það virðist sem það virki stundum en í annan tíma ekki. Ég segi fyrir mína parta: Jú, það hefur skilað árangri. Við höfum náð árangri, alveg ótrúlegum árangri, en til þess að ná árangri í gæsku og mannúð verðum við að fá stjórnvöld með okkur, þá verður ríkisstjórnin að vera með okkur, af því að við búum við þetta meirihlutaræði ævinlega hreint. Ef við værum t.d. með minnihlutastjórnir þar sem við þyrftum virkilega að hafa fyrir því að koma málunum okkar í gegn, eins og tíðkast í Danmörku og fleiri löndum, væri landslagið öðruvísi. Hér var það einfaldlega þannig þegar ég bar upp breytingartillöguna í síðustu viku og óskaði einmitt eftir mannúð, að allir stjórnarflokkarnir sögðu nei, eins einkennilegt og það nú er, hver og einn einasti maður, alveg sama hvernig honum leið með að segja nei, alveg sama þótt hann væri búinn að undirrita drengskaparheit um að við skyldum bara fara eftir eigin sannfæringu. Ég trúi því ekki að öllum þessum góðu þingmönnum hafi fundist algjörlega sjálfsagt að segja nei, en þau gerðu það samt af því að hér erum við að tala um pólitík, hér erum við að tala um stjórnarsamstarf og það er nú eins gott að rugga ekki bátnum því að þá sekkur kannski skútan. Ég er enn að láta mig dreyma um að það komi einhver sól hérna inn þegar ég kem aftur með breytingartillöguna fyrir 3. umr., að þá bara fyllist allt af gleði, sól og gæsku og þau verði búin að skipta um skoðun og allir segi: Já, að sjálfsögðu gerum við þetta, að sjálfsögðu erum við dásamleg fyrir jólin.