Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[02:31]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Hvað er klukkan orðin? Ég held að ég sé búin að týna því. Hún er þarna, hún er hálfþrjú og við erum hérna að ræða mikilvægasta mál þingvetrarins eina ferðina enn og málinu er ekki sýnd sú virðing að hægt sé að klára þá umræðu í dagsbirtu og henni er ekki sýnd sú virðing að það sé hægt að gera öllum þingmönnum kleift að ljúka máli sínu og segja það sem þau hafa um þetta mál að segja. En það skiptir auðvitað öllu máli vegna þess að við getum rætt hérna alls konar löggjöf yfir allan veturinn, en það eru þessi lög sem stýra því hvað kemst raunverulega til framkvæmda. Það er ekkert mikilvægara en þessi umræða. Þannig að ég ætla bara að taka undir það sem hefur verið sagt hér og biðla enn einu sinni til forseta um að við fáum að halda þessari umræðu áfram í dagsbirtu svo þeir þingmenn sem treysta sér ekki til að vera hér fram á nótt, eðlilega ekki, geti komið því að sem þau ákváðu að gera ekki núna vegna þessa.