Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:15]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni fyrir góðar ábendingar, spurningar og svör. Ég er honum sammála um að hér þarf jafnræðishugsun að koma til, þ.e. að við sammælumst um það, eins og við höfum gert, að færa okkur úr innfluttu jarðefnaeldsneyti yfir í innlenda orku sem kemur bæði úr iðrum jarðar og úr fallvötnunum, hvað sem verður með vindmyllur. Það væri falleg framtíðarsýn að ímynda sér að álverksmiðjurnar umdeildu gætu framleitt laufléttar bifreiðar fyrir okkur, alla vega skrokkinn á þeim, sem síðan væru knúnar áfram með íslenskum rafmótorum sem knúnir væru íslenskri grænni orku úr iðrum jarðar eða fallvötnunum. Ég er sammála því að þetta er yfirleitt ein af stærri fjárfestingum hvers einstaklings, fyrst er það húsnæðið og svo er það bíllinn, og við þurfum að huga að því að gera þessa fjárfestingu aðgengilega fyrir sem allra flesta. Ein af áskorunum okkar — og hér nefndi hv. þingmaður framgönguna gagnvart þeim sem koma hingað á flótta og þurfa skjól. Það er hægt að segja það um Íslendinga að þeir eru gestrisnir að eðlisfari og samhygðin og samhjálpin er okkur í blóð borin. Við erum í grunninn jafnaðarsamfélag. Hins vegar gildir það sama um þá sem eru á flótta og aðra sem hingað koma af fúsum og frjálsum vilja, þeir þurfa yfirleitt að fljúga hingað eða koma með skipum og hvort tveggja er stórt og alvarlegt kolefnisspor í bókhaldi okkar. Sómi okkar er sömuleiðis dálítið undir hælinn lagður þegar við erum að selja syndaaflausnarbréf til stórmengandi iðnfyrirtækja í öðrum löndum. (Forseti hringir.) Við ættum að hætta því og halda heiðri okkar óskertum, a.m.k. í þeim efnum, þangað til við hysjum upp um okkur í grænu umskiptunum.