153. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[14:24]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Nú þegar verðbólgan hefur verið í sögulegu hámarki gengur mörgum illa að halda heimilisbókhaldinu réttum megin við strikið og það þarf að bregðast við. Við hér á Íslandi þurfum að bregðast við líkt og nágrannaþjóðir okkar hafa gert til þess að mæta stöðu heimilanna með stuðningi, bæði vegna húsnæðis og svo til barnafjölskyldna. Þetta hafa norrænu ríkin í kringum okkur gert sem eru líka að glíma við verðbólgu sem hefur verið hærri en áður þó að verðbólgan sé samsett með öðrum hætti en hér á landi. Við eigum líka að líta til norrænu ríkjanna og horfa á hvernig þau nota tilfærslukerfin til að jafna leikinn, til að jafna kjörin.

Við í Samfylkingunni leggjum því til breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið sem snýr að leigjendum. Húsnæðisbætur til leigjenda með lágar tekjur hafa ekki fylgt hækkun á húsaleigu undanfarin ár enda hafa bæturnar staðið í stað frá árinu 2017 og fram á mitt þetta ár. Þá voru húsnæðisbætur hækkaðar um 10% en leiguverð hefur hækkað á þessu tímabili, eða frá árinu 2017, um 35%. Við leggjum því til að bæturnar verði hækkaðar aftur um 10% strax um áramótin til viðbótar hækkuninni frá því í sumar. Við höfum auk þess nú þegar lagt til á Alþingi að komið verði á leigubremsu á leigumarkaði, líkt og verkalýðshreyfingin hefur ítrekað kallað eftir og ríkisstjórnin reyndar lofað með lífskjarasamningunum en svikið.

Vaxtabótakerfið sem snýr að þeim sem eiga húsnæði hefur markvisst verið veikt frá árinu 2014 og nú er svo komið að það þjónar ekki lengur tilgangi sínum. Við í Samfylkingunni teljum mjög mikilvægt á tímum verðbólgu og vaxtahækkana að skerðingarmörk vegna eigna í vaxtabótakerfinu verði hækkuð í samræmi við hækkun á íbúðaverði en líkt og allir vita hefur húsnæðisverð hækkað mjög mikið undanfarin ár hér á landi. Hækkunin sem við leggjum til á vaxtabótum ætti þá að ganga að mestu til þeirra sem búa einir og til einstæðra foreldra með lágar tekjur, þ.e.a.s. til þeirra sem verða ekki fyrir miklum skerðingum vegna tekna en eiga eign sem er nálægt efri mörkum eignaskerðingarinnar.

Það er ekkert nýtt, herra forseti, að við í Samfylkingunni tölum fyrir stuðningi við barnafjölskyldur. Allir hljóta að fallast á að það er nauðsynlegt að beita barnabótakerfinu markvisst í núverandi stöðu. Ísland hefur lengi verið eftirbátur hinna norrænu ríkjanna þegar kemur að greiðslum vegna framfærslu barna. Hér byrja barnabætur að skerðast við lægstu laun en í hinum norrænu ríkjunum eru þær ótekjutengdar, nema í Danmörku þar sem barnabætur byrja að skerðast þegar rúmlega meðallaunum er náð. Ef fjárlagafrumvarpið verður samþykkt óbreytt munu barnabætur dragast saman að raunvirði milli áranna 2022 og 2023. Við viljum setja 3 milljarða inn í kerfið og nýta þá þannig að upphæðin sem greidd er með hverju barni verði hækkuð og það verði fleiri fjölskyldur sem njóti óskertra barnabóta.

Ef þessar tillögur Samfylkingarinnar verða samþykktar munu þær verja heimilin og barnafjölskyldur landsins í núverandi efnahagsástandi. Þetta eru jöfnunartæki, húsnæðisbætur, vaxtabætur, barnabætur, sem við þekkjum vel og vitum að virka vel. Kerfin eru til, það eina sem þarf að gera er að stilla viðmiðin þannig að þau gagnist fólki með millitekjur og lágar tekjur betur en þau gera nú. Auk þess viljum við halda áfram uppbyggingu almenna íbúðakerfisins en í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að draga úr stuðningi sem er ótrúlegt í því ástandi sem er á húsnæðismarkaði í dag. Almenna íbúðakerfið er eina stóra, félagslega kerfið sem við eigum og það þarf að byggja undir það kerfi mun betur en nú er gert. Þar eigum við líka að líta til norrænu ríkjanna sem eru með húsnæðiskerfi sem hafa staðist tímans tönn og virka vel fyrir fólk á meðaltekjum og lágum tekjum. Við þurfum að tryggja öryggi fólks. Að eiga heimili er ekki bara efnahagsmál, það er velferðarmál og þarna eigum við að stíga miklu fastar inn í, bæði í uppbyggingu á íbúðum sem hægt er að leigja út á viðráðanlegu verði en einnig með stuðningi í gegnum húsnæðisbóta- og vaxtabótakerfið.

Herra forseti. Ég vil nota tíma minn hér til að tala um þann hóp sem stjórnvöld virðast einhvern veginn hafa tekið í heilu lagi og sett til hliðar í samfélaginu. Þar er ég að tala um öryrkja sem þurfa að treysta á bætur almannatrygginga. Enn einu sinni stendur yfir endurskoðun á kerfinu sem er mjög flókið. Það er með alls konar skerðingum og ef bótaflokkur hækkar hér þá lækkar eitthvað annað á móti þannig að einhvern veginn tekst alltaf að halda öryrkjum í neikvæðri stöðu, alveg sama hvernig málum er snúið. Kerfið er til endurskoðunar enn einu sinni og ef eitthvað kemur út úr því munu tillögurnar verða lagðar fram hér á þingi árið 2024. Við höfum fylgst með svo mörgum nefndum vinna að þessu máli en það hefur engum árangri skilað.

Mig langar aðeins til að skerpa á því hvernig staðan er í dag, hvernig staðan er í raun. Bótaflokkar eru nokkrir: örorkulífeyrir, aldurstengd örorkuuppbót, tekjutrygging, heimilisuppbót og framfærsluuppbót. Þetta eru þessir fimm flokkar sem raðast svo upp og framfærsluuppbótin er tekjutengd þannig að hún fer strax niður við fyrstu krónu sem öryrkinn vinnur sér inn aukalega, fer niður um 65 aura á móti hverri krónu. Þessi framfærsluuppbót er í dag, hjá öryrkja sem býr einn, 80.606 kr. og heimilisuppbótin er 58.678 kr. Þetta eru greiðslur sem öryrki sem býr einn getur fengið en öryrki sem býr einn og fékk fyrsta mat 40 ára, það segi ég til að stilla af aldurstengdu örorkubótina, hefur í ráðstöfunartekjur, eftir að hafa borgað skatt, 256.908 kr. á mánuði. Öryrki í sömu stöðu sem býr ekki einn fær enga heimilisuppbót og framfærsluuppbótin fer niður í 65.089 kr. á mánuði. Ráðstöfunartekjur öryrkja sem býr einn, og fékk 40 ára sitt fyrsta mat, eru 206.355 kr. á mánuði. Mér finnst mikilvægt að draga þetta fram, forseti, til þess að sýna að það er líka óréttlæti innan kerfisins. Ef ég verð öryrki og bý með maka er ég sjálfkrafa komin niður í mánaðartekjur sem eru fyrir neðan allt. Þarna er munurinn á milli lægstu launa og þess sem öryrkjar sem eru í sambúð fá um 90.000 kr. á mánuði. Það eru 90.000 kr. á mánuði sem kjaragliðnunin er orðin, þ.e. á milli lægstu launa og svo þeirra sem þurfa að treysta á greiðslur almannatrygginga.

Nú fáum við hér til umræðu í þingsal þingmál með tillögu um að frítekjumark atvinnutekna hjá öryrkjum fari upp í 200.000 kr. á mánuði. Það hefur ekki hækkað síðan 2009, ef ég man rétt, og er núna 109.000 kr. á mánuði. Þetta er fín tillaga og við í Samfylkingunni höfum margoft lagt hana fram en hún hefur verið felld jafnóðum. Núna kemur hún í gegnum ráðherrann og við fögnum því. En það er samt rétt að við áttum okkur á því hvað þetta þýðir. Þetta gagnast auðvitað öryrkjum sem geta unnið en það eru ekki allir sem eru í þeirri stöðu. Um 28% öryrkja eru með atvinnutekjur, þetta gagnast þeim og getur verið hvatning fyrir fleiri sem geta farið út á vinnumarkaðinn. En um leið og þau fara út á vinnumarkaðinn þá skerðist framfærsluuppbótin og þau þurfa að borga gjald til að komast inn á vinnumarkaðinn. Um leið og þau eru búin að fá þetta 200.000 kr. frítekjumark þá er framfærsluuppbótin, upp á 80.606 kr., dottin út. Það má líta á þetta þannig að til þess að komast upp í 200.000 kr. þá borga þau fyrst 80.606 kr. sem dregst frá og svo auðvitað borga þau skatt af öllum 200.000 kr. Það er því ótrúlega lítill ávinningur af þessu frítekjumarki. Hann er sannarlega einhver. En við skulum bara muna þetta: Það gengur ekki allt í vasa öryrkjans sem getur unnið sér inn 200.000 kr. og nýtt þannig frítekjumarkið. Það rennur ekki allt beint í hans vasa því að framfærsluuppbótin lækkar á móti.

Þann 1. september síðastliðinn voru 5.405 manns, eða rúmlega 28% af örorkulífeyrisþegum með 75% mat og greiðslur, með einhverjar atvinnutekjur. Langflestir voru með minna en 200.000 kr. á mánuði og miðgildið um 150.000 kr. á mánuði. Við getum reiknað það út, vegna þess að framfærsluuppbótin er 80.606 kr. og hún skerðist um 65 aura á móti hverri krónu og er þá dottin út eftir rétt um 100.000 kr. laun. Þetta skulum við hafa í huga um leið og við fögnum því að eitthvert skref sé stigið í átt að því að bæta kjör öryrkja.

ÖBÍ-réttindasamtök létu gera könnun á stöðu fatlaðs fólks á húsnæðismarkaði. Þar kemur fram að 17% öryrkja hafa mjög miklar áhyggjur af kostnaði við rekstur húsnæðis og 21% hefur frekar miklar áhyggjur, 58% þeirra sem búa í eigin húsnæði en 84% þeirra sem búa í leiguhúsnæði eða við annars konar búsetuskilyrði segja húsaleigu eða afborganir af húsnæðislánum vera þunga eða nokkra byrði. Og ég spyr, forseti: Er einhver hissa á því ef horft er á þær mögulegu tekjur sem öryrkjar geta skapað sér? Það kemur líka fram í þessari könnun að það eru mjög margir og allt of margir öryrkjar sem eru að greiða 75–80% af ráðstöfunartekjum sínum beint í húsaleigu og þá er ekkert eftir. En þegar við erum að tala um hvenær húsnæðiskostnaður er íþyngjandi er miðað við að hann fari yfir 40%, þá er hann orðinn íþyngjandi. Öryrkjar búa við miklu hærri byrði að þessu leyti þegar kemur að húsnæðiskostnaði.

Það er ekki bara þetta, forseti. Nú þegar samningar eru lausir, og hafa verið lausir í fjögur ár, á milli sjúkratrygginga og sérfræðilækna og sjúkraþjálfara bera þeir sem eru langveikir þyngstu byrðarnar vegna þess að kostnaðinum af samningsleysinu er skellt á þá sem þurfa á sérfræðiþjónustu að halda. Þetta eru ekki einhverjir fáir þúsundkallar. Þetta eru 4–5.000 kr. við hverja komu. Þetta er svolítið misjafnt eftir stöðvum og síðan eru það aðgerðir og speglanir sem kosta enn fleiri þúsundkalla. Öryrkjar eru ýmist fatlaðir eða langveikir og langveikt fólk þarf að fara oftar til sérfræðilækna og oftar í sjúkraþjálfun en aðrir og þarna er bara aukaskatti skellt á langveikt fólk. Það er staða sem er algjörlega óþolandi. Það er óþolandi og ómögulegt að við hér, löggjafinn, höfum ekki breytt lögum um sjúkratryggingar til að koma í veg fyrir að þetta geti gerst. Við þurfum að breyta lögunum þannig að sérgreinalæknir, eða hver sem er sem fær greiðslur frá ríkinu, geti ekki rukkað skjólstæðinga sína líka á sama tíma. Það þarf þá að vera einhver varúðarráðstöfun ef samningar nást ekki eins og við erum með á vinnumarkaði þegar samningar fara í Kjaradóm. Það þurfa að vera einhverjar skorður á þessu. Það er algerlega óþolandi að það sé enginn hvati fyrir ríkið til að semja af því að ef ríkið semur þá fer meira úr ríkissjóði og það er ekki heldur hvati fyrir sérfræðinga að semja af því að þeir fá hvort sem er borgað frá sjúklingunum. Þetta er staða sem er alveg óþolandi en um leið og þetta er svona þá lengjast biðlistarnir líka í þessu ástandi, þannig að það er mikilvægt að taka á þessu.

Þá er ég farin að tala um heilbrigðiskerfið. Við urðum auðvitað vör við það í Covid-ástandinu að veikleikar heilbrigðiskerfisins komu mjög vel í ljós og álagið á heilbrigðisstarfsfólk var ómannúðlegt. Núna eru heilbrigðisstarfsmenn að glíma við eftirköstin og kulnun er orðin hálfgerður faraldur meðal þeirra eftir þennan erfiða tíma. En það var ekki bara í Covid, það var ekki bara 2020, sem veikleikarnir komu í ljós. Við þekktum þá árið 2016, það var talað um það hér í þessum sal og í greinum. Við í Samfylkingunni reyndum a.m.k. að vekja athygli á því að þá var staðan þannig að á næstu þremur árum, frá 2016–2019, sáum við fram á að 450 hjúkrunarfræðingar myndu útskrifast en út úr stofnununum færu, vegna aldurs, á milli 700–900 hjúkrunarfræðingar eftir því hvenær þær, þetta eru aðallega konur, kysu að fara á eftirlaun. Þarna var augljóslega mikið bil á milli þeirra sem voru að koma nýir inn og svo hinna sem voru að fara út á sama tíma og íbúum var að fjölga, þjóðin að eldast o.s.frv. þannig að þörfin var enn þá meiri. Auk þess fóru alls ekkert allir þessir 450 hjúkrunarfræðingar að vinna hjá heilbrigðiskerfinu heldur fóru í störf þar sem eru betri laun og minna álag og meiri frítími. Mönnunarvandinn, sem er stór vandi í heilbrigðiskerfinu, var fyrir löngu ljós og við hefðum getað brugðist við miklu fyrr. Eins og við vitum er mjög margt vel gert í heilbrigðiskerfinu okkar, þökk sé því frábæra starfsfólki sem þar vinnur á hverjum degi við að hjúkra sjúku fólki. En þó að margt gott sé gert er langt því frá að allt virki eins og best verður á kosið. Heilbrigðisstarfsfólkið okkar þarf á fleiri kollegum að halda inni á stofnununum, inni á heilsugæslustöðvunum o.s.frv., því að jafnvel þó að þau hlaupi hraðar og hraðar komast þau ekki yfir að sinna öllum sem þarf að sinna. Hættan er sú, forseti, og það eru kannski ákveðin merki um það, að við förum í neikvæðan spíral af því að unga fólkið velur sér ekki þessi störf, velur sér annaðhvort að mennta sig til annarra starfa og jafnvel þótt að hjúkrunarfræðingar séu útskrifaðir eru þeir eftirsóttir starfskraftar og velja sér önnur störf. Eftir standa hinir sem hafa ekki yfirgefið vettvanginn og verða undir enn meira álagi. Þegar við ræðum þetta og erum að kalla eftir auknu fjármagni til heilbrigðiskerfisins þá segja stjórnarliðar: Þetta er ekki fjármagnsvandi, þetta er mönnunarvandi. En þetta tengist. Við þurfum peninga inn í heilbrigðiskerfið til að bæta aðstöðu fólks, til þess að bæta launin og til að gera starfsaðstæður aðlaðandi þannig að fleiri vilji koma og vinna að þessum störfum og þeir sem fyrir eru yfirgefi ekki vettvanginn. Síðan þurfum við auðvitað að reyna að laða fólk að til að mennta sig en eins og við sáum í Covid komu hjúkrunarfræðingar inn á stofnanir til að aðstoða þegar mesta álagið var, hjúkrunarfræðingar sem höfðu ákveðið að vinna önnur störf. Þau eru til þarna úti en við þurfum að laða þau að og við þurfum svo mikið á þeim að halda og við þurfum að gera vel við þau. Það kostar peninga en ríkt samfélag, eins og við erum svo heppin að búa í, á auðvitað að gera það sem það getur. Eitt af því er að hækka laun og bæta starfsaðstæður og það er hægt að gera fyrir peninga. Núna erum við að ræða fjárlagafrumvarpið og það væri upplagt að taka á þessu máli strax en þó eigi síðar en í næstu fjármálaáætlun.

Ég vil að lokum, forseti, tala hér um heilbrigðisstofnanir úti um landið. Ég vil vitna hér í umsögn þeirra með fjárlagafrumvarpinu, með leyfi forseta:

„Öflugt heilbrigðiskerfi í dreifðari byggðum þessa lands er mikilvægt, ekki bara fyrir þá sem þar búa heldur heilbrigðiskerfið allt. Það skiptir máli að geta veit öfluga skilgreinda þjónustu nærri íbúum þannig að ekki þurfi að koma til óþarfa ferðalaga með tilheyrandi kostnaði bæði samfélagslega og á heilbrigðiskerfið sjálft. Til þess að svo megi verða er mikilvægt að efla þjónustu á landsbyggðinni og gera heilbrigðisstofnunum þar kleift að byggja upp þjónustu frekar en að skera niður. Öflug þjónusta landbyggðarinnar dregur úr miðstýringu og flæði sjúklinga á yfirfulla þriðja stigs þjónustu sem í senn er dýrari og veldur óþarfa raski á lífi íbúa þessa lands. Það er því ákall okkar að ríkisvaldið tryggi fjármögnun heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni þannig að ekki þurfi að skerða þjónustu. Orðræða um heilbrigðisþjónustu á það til að fjalla mikið um sérgreinar og sérgreinasjúkrahús og fjármögnun þeirra en sé alltaf horft þangað er hætt við að lausnin við vanda þriðja stigs þjónustunnar renni okkur úr greipum nefnilega uppbygging fyrsta og annars stigs þjónustu. “

Ég vil taka undir þetta. Í mínu kjördæmi er mikil vöxtur. Íbúum fjölgar mjög mikið á vaxtarsvæðunum á Suðurnesjum, svo sem á Árborgarsvæðinu. Samsetning íbúa á Suðurnesjum er t.d. þannig að bara túlkaþjónusta er dýrari þar en á öðrum stöðum á landinu og taka þarf tillit til þess. Því miður er það ekki svo og þessar stofnanir hafa verið sveltar ár eftir ár. Á öllum þessum þenslutíma sem hefur verið á Suðurnesjum, og íbúafjölgun þar hefur verið mjög mikil, hún er það líka núna á Árborgarsvæðinu, þá er ekki tekið tillit til þess að það þurfi að þjónusta þetta fólk. Þar tala ég fyrst og fremst um heilbrigðisstofnanirnar en það á líka við um fjölbrautaskólana. Það er bara þannig, forseti, að þegar íbúum fjölgar þá kallar það á aukna þjónustu. Ríkið þarf að standa sig þar líkt og sveitarfélögin eru að gera.