153. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[14:52]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir ræðuna. Hún kom inn á stöðu húsnæðismála hér á landi og bar hana saman við Norðurlöndin. Við vitum, þar sem við erum í Norðurlandaráði, að himinn og haf er þar á milli. Við erum að tala um einhver örfá prósent, 4%–5% á Íslandi, miðað við 15%–20% annars staðar á Norðurlöndunum, í félagslegu húsnæði, í leiguhúsnæði á góðu verði. Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér að við getum náð þangað? Er það einhver möguleiki með þessa ríkisstjórn við völd?

Síðan er annað sem hv. þingmaður kom inn á og það er þessi hækkun frítekjumarks úr 109.600 kr. í 200.000 kr. Ég er með breytingartillögu, til að gefa þeim tækifæri sem eru með framfærsluuppbótina svo að þeir geti verið með, um að taka út skerðingar á framfærsluvísitölunni til að gefa — þeir sem eru með einhverjar greiðslur í framfærsluuppbótinni eru um 8.000 manns, þannig að við erum að tala um ótrúlegan hóp. Síðan er það þessi blekking hjá ríkisstjórninni þegar hún segir að það kosti að breyta þessu. Þetta getur ekki kostað neitt vegna þess að um er að ræða ákveðinn hóp sem alltaf þarf að borga sömu upphæðina. Þegar þessi hópur fer út og byrjar að vinna þá borgar hann útsvar, jafnvel tekjuskatt, til baka. Það hlýtur að vera gróði og alltaf er sama upphæðin borguð úr ríkissjóði. Þetta getur því aldrei verið kostnaður, þetta er spurning um sparnað í kerfinu. Er hv. þingmaður ekki sammála mér um að það eigi aldrei að hindra það að fólk fái að vinna? Fólk á að fá að vinna skatta- og skerðingarlaust og svo bara borgar það sína skatta.