Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:48]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu sína sem laut aðallega að þróunarsamvinnu. Hann minntist á breytingartillögu sem hann er með, ég fann því miður ekki skjalið frammi á gangi. (GRÓ: …vinna í því.) Það er verið að vinna í því, já. Ef ég man rétt er það upp á 750 millj. kr. Ef ég skil þetta rétt þá er verið að taka fé úr alþjóðaþróunarsamvinnu, málefnasviðinu sem heitir það, fé sem fer í verkefni sem eru búin að vera í gangi nokkur ár væntanlega, og setja í aðstoð vegna stríðsins í Úkraínu. Fjárveitingar úr íslenska ríkissjóðnum til aðstoðar vegna stríðsins í Úkraínu flokkast undir alþjóðlega þróunarsamvinnu og þá skerðast væntanlega þau verkefni sem nú eru í gangi í þróunarsamvinnunni. Veit hv. þingmaður hvaða verkefni er verið að skera niður, einhver ákveðin verkefni? Hvernig er þessum niðurskurði á hinum hefðbundnu verkefnum í alþjóðaþróunarsamvinnunni háttað? Þau eru skorin niður vegna þess að við flokkum framlög okkar til aðstoðar vegna Úkraínustríðsins sem alþjóðlega þróunarsamvinnu. Finnst honum það réttlátt? Mér finnst það einhvern veginn ekki réttlátt að setja stríð í Evrópu og það að við styðjum Úkraínu sem hefur orðið fyrir innrás annars ríkis og flokka það undir þróunarsamvinnu. Er það réttlátt að aðstoð við Úkraínu flokkist undir þróunarsamvinnu? Væri ekki rétt að þetta væri tekið út fyrir sviga sem sérstök fjárútgjöld og kæmi ekki niður á öðrum verkefnum í þróunarsamvinnu? Ég hef ekki fengið útlistun á því hvaða verkefni er verið að skera niður og hvernig þessu er háttað og ég get ekki séð að það sé þróunarsamvinna að styðja við vini okkar í Úkraínu.