Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:50]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég hef heldur ekki fengið nákvæmt yfirlit yfir hvað er verið að skera niður. Mér skilst að þetta séu m.a. framlög til félagasamtaka vegna þróunar- og mannúðarverkefna og framlög til alþjóðastofnana. Ég reikna með að fá eða alla vega mun ég biðja um þessar upplýsingar á næsta fundi þróunarsamvinnunefndar sem fundar í lok desember. En já, það er rétt skilið hjá hv. þingmanni að við erum að taka fjármagn frá mjög brýnum verkefnum annars staðar í heiminum til þess að gera tvennt; að styðja við mannúðarverkefni í Úkraínu og til að styðja að hluta til jafnvel við hernaðarlega tengd verkefni og síðan fellur hluti af kostnaði vegna þeirra sem sækja um hæli hér frá Úkraínu líka undir þetta kostnaðarsvið. Það er reyndar ekki stórt hlutfall en smáhlutfall af því gerir það. Þetta er ég að reyna að benda á, ég tel, rétt eins og hv. þingmaður, að Úkraínustríðið sé sérstakur atburður sem við þurfum hreinlega, eins og hv. þingmaður orðaði það, að taka út fyrir sviga. — Ég sé reyndar að klukkan hefur ekki farið í gang en ég held að ég sé kominn með sirka tvær mínútur, forseti.

(Forseti (BÁ): Það var eitthvað ólag á klukkunni.)