Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

aðgengi að sálfræðiþjónustu.

[15:43]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Já, guð láti gott á vita, af því að við erum enn þá með t.d. með ótímasetta heilbrigðisáætlun sem var samþykkt fyrir árin 2019–2030, enn hefur ríkisstjórnin ekkert gert í því að tímasetja aðgerðaáætlun þegar kemur að henni. Það er einfaldlega þannig að við sjáum hver vandinn er en hann er ekki að leysast. Ég er búin að vera í framhaldsskólunum síðastliðnar vikur og 90% af spurningum sem ég fæ eru: Á ekki að gera eitthvað í aðgengi að sálfræðiþjónustu? Á ekki að gera eitthvað meira? Þetta er hópurinn sem við erum að reyna að einblína á, ungt fólk, tekjulágt fólk. Það þarf að finna það að við séum að gera eitthvað í því, ekki bara einhver tæknileg svör hérna inni. Við erum komin yfir það. Við samþykktum samhljóða, stolt hér á þingi, að við ætluðum að niðurgreiða sálfræðiþjónustu til fólks, sérstaklega þessara hópa sem ég hef verið að nefna. Það er ekki verið að opna faðminn nægilega mikið. Það er ekki upplifun fólks. Gott samfélag sér til þess að einstaklingar sem eru hjálparþurfi komi ekki að lokuðum dyrum og (Forseti hringir.) neyðist til að bera harm sinn í hljóði. Gott samfélag tryggir gott geðheilbrigði. Farið nú að vakna, elsku hjartans ríkisstjórn.