Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

Pólitísk ábyrgð á Íslandi.

[16:11]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegur forseti. Í síðustu viku voru fluttar fréttir af Brynju Hrönn Bjarnadóttur, 65 ára konu, hún er öryrki föst á leigumarkaði og Alma leigufélag, fyrirtæki sem skilaði 12,4 milljarða hagnaði í fyrra, tilkynnti Brynju að leigan hennar myndi hækka um 30%, 78.000 kr. á einu bretti eftir áramót. Hvað hefur þetta að gera með pólitísk ábyrgð? Jú, ég nefni þetta hér vegna þess að hæstv. ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur ekki staðið við þau fyrirheit sem gefin voru síðast þegar ríkisstjórnin steig inn til að liðka fyrir kjarasamningum. Ef hún hefði gert það, ef hún hefði staðið við það sem var lofað, væri staða þessarar konu, Brynju Hrannar Bjarnadóttur, allt önnur en hún er í dag. Rifjum aðeins upp hverju var lofað. Ákvæði húsaleigulaga verði endurskoðuð til að bæta réttarstöðu leigjenda, m.a. hvað varðar vernd leigjenda þegar kemur að hækkun leigufjárhæðar. Þetta segir í yfirlýsingu um stuðning stjórnvalda við lífskjarasamningana frá 2019. Hvað hefur svo gerst í þessum efnum? Nákvæmlega ekki neitt. Samningstímabilinu er lokið og engar hömlur hafa verið settar eða varnir verið reistar gegn hækkun leigufjárhæðar. Fólk eins og Brynja Hrönn Bjarnadóttir stendur þannig óvarið á stjórnlausum leigumarkaði, auðveld bráð fyrir okurfyrirtæki og braskara sem skeyta hvorki um skömm né heiður. Pólitísk ábyrgð snýst nefnilega líka um að standa við orð sín, að það sé eitthvað að marka það sem er sagt, að það sé eitthvað að marka loforð sem eru gefin þeim sem lökust hafa kjörin. Þetta skilur ríkisstjórnin í Skotlandi sem sagðist ekki bara ætla að standa með leigjendum heldur gerði það raunverulega, hafði forgöngu um að sett voru lög í landinu um frystingu leiguverðs. Það sama gerðu jafnaðarmenn í Danmörku og við hér á Íslandi getum gert það líka.